Þakkir til fráfarandi bæjarstjórnar

Á þessum tímamótum langar mig að þakka fráfarandi bæjarstjórn fyrir samstarfið og bæjarfulltrúum fyrir vel unnin störf.  

Fyrir fjórum árum þegar ég koma til starfa í Fjallabyggð hafði verið kosið um sameiningu Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og lá fyrir að stærsta verkefni nýrrar bæjarstjórnar væri að sameina þessa tvo byggðakjarna. Verkefnið hefur verið gríðarlega umfangsmikið, mikil vinna og mikið álag hefur verið á bæjarfulltrúum ásamt því að miklum tíma hefur verið varið í ferðalög á milli byggðakjarnanna.

Fyrsta verkefni bæjarstjórnar var að sameina stjórnsýsluna, þ.e.a.s. setja upp nýtt skipurit, sameina bókhalds-, tölvu- og símkerfi og innleiða nýtt málakerfi. Einnig var tækjabúnaður á tæknideild endurnýjaður.

Í upphafi tímabils var Fjallabyggð aðili að SSNV og Eyþingi og kallaði það eitt og sér á enn meiri vinnu og ferðir bæjarfulltrúa en á kjörtímabilinu sagði Fjallabyggð sig úr SSNV og færðist samstarfið til Eyþings.  Við erum þó enn í samstarfi við SSNV um málefni fatlaðra.

Verkefni sem bæjarstjórn vann að síðastliðin fjögur ár voru meðal annars:

  • Sameining hafna. Siglufjörður rak sína eigin höfn á meðan Ólafsfjarðarhöfn var í samlagi með Hrísey og Dalvíkurbyggð undir heitinu Hafnarsamlag Eyjafjarðar. Var það samlag lagt niður og Ólafsfjarðarhöfn og Siglufjarðarhöfn sameinaðar undir nafninu Fjallabyggðahafnir.
  • Sameining slökkviliða. Jafnframt keyptur nýr glæsilegur slökkvibíll árið 2009.
  • Boðin var út sorphirða í Fjallabyggð og gengið var frá samningum um hana. Þar með varð Fjallabyggð einn af brautryðjendum í umhverfisvænni sorphirðu, en allt sorp er flokkað og hefur náðst verulegur árangur á því sviði.
  • Sameining skólanna í Fjallabyggð. Því verkefni er nú senn lokið. Tón-, leik- og grunnskólar hafa verið sameinaðir undir einn skólastjóra á hverjum stað í stað tveggja og hefst starfsemi þeirra á nýju skólaári í haust.
  • Sameining bókasafnanna. Unnið er þessa dagana að sameiningu bókasafna á Siglufirði og í Ólafsfirði. Auglýst hefur verið eftir bókasafnsfræðingi í starf forstöðumanns Bókasafns Fjallabyggðar.
  • Sameining þjónustumiðstöðva. Nú á vordögum var unnið að sameiningu áhaldahúsa á Siglufirði og í Ólafsfirði í Þjónustumiðstöð Fjallabyggðar. Auglýst hefur verið eftir verkstjóra í nýja Þjónustustofnun Fjallabyggðar.
  • Bæjarstjórn vann ötullega að stofnun Menntaskólans á Tröllaskaga sem mun hefja starfsemi í Ólafsfirði nú í haust.
  • Bæjarstjórn hefur unnið markvisst að bættri þjónustu málefna fatlaðra í Ólafsfirði, en stefnt er að því að sú þjónusta verði með sama hætti og á Siglufirði, þ.e.a.s. í samstarfi við SSNV.
  • Unnið hefur verið að nýju aðalskipulagi Fjallabyggðar, en sú vinna er alveg á lokasprettinum. Verður nýtt aðalskipulag auglýst á næstu dögum.
  • Unnið var að fjórum „stefnum" í Fjallabyggð. Fræðslu-, frístunda-, menningar- og starfsmannastefnur voru unnar í nánu samstarfi við alla þá aðila sem þær snerta. Mikil og vönduð vinna liggur að baki þessum stefnum, en þær má finna á heimasíðu Fjallabyggðar.
  • Einnig var farið yfir flestar samþykktir, reglur og gjaldskrár og þær uppfærðar og aðlagaðar að nýju sveitarfélagi.
  • Mikið var framkvæmt á þessum fjórum árum, svo sem viðbygging við leikskóla, endurnýjanir sundlauga, sjóvarnir, gatnagerð, gámasvæði byggt, endurnýjaðir leikvellir, sett upp leiktæki á skólalóðir Grunnskólanna, fjarlægð var hættuleg bryggja á Siglufirði og keypt skemma undir eigur sveitarfélagsins sem höfðu verið úti á víðavangi, engum til gleði. Ráðist var í gagngerar endurbætur á ráðhúsinu á Siglufirði, en það hafði ekki fengið viðhald til margra ára. Bókasafnið á Siglufirði hefur einnig fengið algjöra upplyftingu.
  • Listasafn Fjallabyggðar var kynnt í fjölmiðlum og víðar ásamt því að verk safnsins voru skrásett og yfirfarin af forverði. Hefur safnið nú verið sett inn á glæsilega heimasíðu, en þar er að finna upplýsingar um listaverkin.
  • Fegrun bæjanna var ofarlega á baugi allt kjörtímabilið.

Eins og sjá má var mikið og gott starf unnið á kjörtímabilinu og vil ég hér með færa fráfarandi bæjarstjórn mínar bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf.

Þórir Kristinn Þórisson
Bæjarstjóri