Tendruð voru ljós á jólatrjám í Fjallabyggð um nýliðna helgi

Dagskráin var á ljúfu nótunum í báðum byggðakjörnum.

Laugardaginn 26. nóvember sl. voru ljósin tendruð á trénu við Menningarhúsið Tjarnarborg en þar flutti Anna María Elíasdóttir jólasögu um jólasvein einn sem lenti í hremmingum á leið sinni til Ólafsfjarðar með jólapakkana. Börn úr leikskólanum Leikhólum sungu nokkur jólalög undir leiðsögn Guðmanns Sveinssonar sem lék á gítar og stjórnaði söngnum. Lísa Hauksdóttir og Gunnlaugur Helgason léku og sungu nokkur vel valin jólalög. Skíðafélag Ólafsfjarðar bauð upp á heitt kakó og piparkökur. Það var svo Kamilla Sigríður Rúnarsdóttir fædd 2017 sem fékk það hlutverk að tendra ljós jólatrésins sem að þessu sinni var gjöf frá Óskari Finnssyni í Ólafsfirði. Fjallabyggð vill færa Óskari kærar þakkir fyrir höfðinglega gjöf.

Á Siglufirði voru tendruð ljós á jólatrénu á Ráðhústorginu 1. sunnudag í aðventu, 27. nóvember. Sæunn Gísladóttir flutti ávarp, jólaminningu frá æskuárum sínum í Frakklandi, börn af leikskólanum Leikskálum sungu jólalög undir leiðsögn Guðmanns Sveinssonar sem lék á gítar og stjórnaði söngnum og Edda Björk Jónsdóttir og Hörður Ingi Kristjánsson sungu og léku nokkur jólalög.

Það var Óliver Ares Hermannsson, fæddur 2017 sem tók að sér að tendra ljós jólatrésins á Siglufirði.

Jólasveinarnir létu sig ekki vanta og mættu til byggða báða dagana,  með eitthvað gott og hollt í pokanum og vöktu þeir mikla kátínu meðal yngstu barnanna.

Rigning var á báðum stöðum en stillt veður. Fjölmenni var við þessar athafnir og tókust þær vel.