Skjáskot úr myndbandinu Sykur á borðum
Tannverndarvikan árið 2015 er helguð því að kynna landsmönnum mikilvægi þess að draga úr sykurneyslu. Kjörorð vikunnar er Sjaldan sætindi og í litlu magni. Í tilefni þessa kynnir Embætti landlæknis nýjan vef, www.sykurmagn.is mánudaginn 2. febrúar 2015. Á vefnum eru myndrænar upplýsingar um viðbættan sykur í ýmsum matvælum, sætindum og sykruðum gos- og svaladrykkjum. Vefnum sykurmagn.is er ætlað að efla færni í fæðuvali, en tíð og óhófleg neysla sykurs eykur líkur á tannskemmdum. Með hjálp vefsins geta foreldrar hjálpað börnum sínum að læra að velja æskilegar vörur með minna magni af viðbættum sykri en aðrar sambærilegar vörur. Vefurinn nýtist einnig í kennslu.
Annar liður í tilefni Tannverndarviku er útgáfa myndbandsins Sykur á borðum. Í því er litið inn hjá fjölskyldu sem ætlar að eiga notalega stund við sjónvarpið. Myndbandið er aðgengilegt á vef Embættis landlæknis á slóðinni http://www.landlaeknir.is/tannvernd.
Ábyrgð samfélagsins
Til að draga úr neyslu sætinda og sykraðra drykkja eru stjórnendur íþróttamannvirkja, skóla og annarra stofnana hvattir til að leggja áherslu á að hafa hollari vörur í boði. Stjórnendur verslana þar sem sælgæti er til sölu eru einnig hvattir til að endurskoða afsláttarkjör á sælgæti og íhuga að veita afslátt af hollari vörum, s.s. ávöxtum og grænmeti. Embætti landlæknis hvetur landsmenn til þess að draga úr neyslu gosdrykkja og gæta hófs í neyslu á sælgæti, kökum, kexi og ís.
Hér má lesa bréf sem Landlæknisembættið sendir foreldrum grunnskólabarna í tilefni Tannverndarvikunnar.