Framtíð ferðaþjónustunnar á Íslandi
Ferðaþjónustan hefur á skömmum tíma vaxið í að verða ein af stærstu atvinnugreinum á Íslandi og vegur framlag hennar til þjóðarbúsins þungt.
Á dögunum var kynnt skýrsla sem KPMG Framtíð ferðaþjónustunnar á Íslandi árið 2030" href="https://home.kpmg.com/content/dam/kpmg/is/pdf/2016/09/KPMG-Framtid-ferdathjonustunnar-a-Islandi-arid-2030-utgafa.pdf" target="_blank">Framtíð ferðaþjónustunnar á Íslandi árið 2030 (PDF 2,6 MB) sem KPMG vann fyrir Stjórnstöð ferðamála.
Í kjölfarið hefur verið mikið rætt um ferðaþjónustu og var gerð grein fyrir skýrslunni og málefninu í heild í fréttum 13. september sl. (Gestrisnin dvínar með of miklum fjölda)
Einnig var góð umfjöllun um sviðsmyndir ferðamálanna í þættinum samfélagið föstudaginn 9. september sl., og þar voru þær Svanhildur Konráðsdóttir, Kristín Linda Árnadóttir og Ólöf Ýrr að segja frá skýrslunni. Hægt er að hlusta á umfjöllunina á RÚV.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:
Mikilvægustu drifkraftar og óvissuþættir ferðaþjónustunnar eru:
Samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar ferðamanna þ.e. hversu eftirsóknarvert Ísland er heim að sækja.
Þolmörk lands og þjóðar, en þau eru mælikvarði á það hversu vel í stakk búið samfélagið og náttúran eru til að taka á móti ferðamönnum. Þessum óvissuþætti má þannig á vissan hátt líkja við afkastagetu Íslands sem ferðamannastaðar.
Þegar þessum meginþáttum er steypt saman myndast fjórar ólíkar sviðsmyndir sem gefin voru lýsandi nöfn. Þessar sviðsmyndir eru:
„Niceland“
Innviðir samfélagsins eru vel í stakk búnir til að taka á móti og standa undir aukningu ferðamanna
„Ferðamenn – nei takk“
Landið er vinsæll áfangastaður en hefur sprengt af sér veikar grunnstoðir
„Laus herbergi“
Nýjabrumið farið af Íslandi, ferðamönnum fer fækkandi og afkastageta er umfram eftirspurn
„Fram af bjargbrúninni“
Orðspor Íslands sem áfangastaðar fer versnandi, innviðir eru að hruni komnir eftir mikla ásókn ferðamanna.
Með sviðsmyndavinnunni var ferðaþjónustan að gera sér grein fyrir því hvernig starfsumhverfi greinarinnar getur þróast á komandi árum og hvaða aðgerðir grípa þarf til af stjórnvöldum og hagsmunaaðilum í greininni til að tryggja ferðaþjónustuna sem styrka atvinnugrein til framtíðar. Sviðsmyndirnar setja í samhengi orsakir og afleiðingar ákvarðana og aðgerða/aðgerðaleysis auk þess að greina helstu áhættuþætti sem geta staðið atvinnugreininni fyrir þrifum.
Rétt er að taka fram að sviðsmyndir eru ekki framtíðarsýn, spá, stefna eða framreikningur. Þær eru öflug aðferð til að skilja umhverfið og skapa sameiginlegan skilning á því hvað rétt er að gera í dag til að undirbúa framtíðina.
Í áhættugreiningunni kom fram að mikilvægasti áhættuþátturinn til framtíðar geti snúist um viðhorf heimamanna og hversu mikilvægt er að það verði ekki neikvætt.
Aðrir þættir sem skipta miklu máli skv. áhættugreiningunni eru:
- Mannmergð á vinsælum viðkomustöðum
- Lág gæðaviðmið ferðaþjónustuaðila
- Skortur á hæfu starfsfólki
- Náttúruspjöll og eyðing náttúrunnar
Efnahagslegur samdráttur erlendis og gjaldeyrisáhætta
Umfjöllunarefni sótt á vef KPMG