Stýrihópur Arctic Coast Way stækkar

Mynd: Markaðsstofa Norðurlands
Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Stýrihópurinn fyrir verkefnið Arctic Coast Way hefur nú verið stækkaður úr 6 meðlimum í 17 og er vinna hafin við annan áfanga verkefnisins. Sótt hefur verið um aukið fjármagn i hina ýmsu sjóði og mun því verkefnið fara á flug inn í næsta áfanga.  Aðilar í stýrihópnum koma nú frá öllum þeim svæðum sem ferðamannavegurinn nær til og þeir starfa á mörgum sviðum sem snerta verkefnið.

Arctic Coast Way er nýtt og spennandi verkefni sem fyrst var kynnt til sögunnar í vetur, og á að draga athygli ferðamanna að strandlengjunni meðfram Norðurlandi. Ferðamannavegir eru þekktir í ferðaþjónustu á heimsvísu, sem verkfæri til að beina ferðamönnum eftir ákveðnum vegum á ákveðin svæði.

Heildarmarkmið verkefnisins er að skapa aukin tækifæri fyrir ferðaþjónustufyrirtæki, með því að skapa vörumerki sem þau geta tengt sig við. Með því gætu þau orðið sýnilegri bæði á innlendum sem og erlendum mörkuðum. Vegurinn er einnig verkfæri til að fá ferðamenn til að fara víðar um landið og á jaðarsvæðin svokölluðu, og til að fá þá til að dvelja lengur á Norðurlandi. Með tilkomu þessar ferðamannavegar ættu einnig að skapast tækifæri til að gera Norðurland að heilsársáfangastað, en það er langtímamarkmið.

Fulltrúar í hópnum eru Sigurður Líndal Þórisson, Davíð Jóhannsson, Bryndís Lilja Hallsdóttir, Kjartan Bollason, Linda Lea Bogadóttir, Margrét Víkingsdóttir, Selma Dögg Sigurjónsdóttir, María Helena Tryggvadóttir, Þórgnýr Dýrfjörð, Arnheiður Jóhannsdóttir, Halldór Óli Kjartansson, Caroline Bjarnason, Halla Íngólfsdóttir, Snæbjörn Sigurðarson, Guðmundur Ögmundsson, Halldóra Gunnarsdóttir og  Gréta Bergrún Jóhannesdóttir. Christiane Stadler verður áfram verkefnisstjóri.