Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri
Sterk fjárhagsleg staða Fjallabyggðar
Ljóst er að fjárhagsleg staða Fjallabyggðar er sterk og rekstrargrundvöllur bæjarfélagsins stöðugur.
Helstu niðurstöður ársreikning Fjallabyggðar fyrir 2022 eru að rekstrarniðurstaða A og B-hluta (samstæðu) er jákvæð um kr. 436 millj. En var neikvæð um kr. 154,9 milljónir árið 2021, rekstrarniðurstaða A-hluta er jákvæð um kr. 165,4 millj. en var neikvæð um kr. 184,2 milljónir árið 2021.
Meginástæður þessa öfluga viðsnúnings eru aðhald í rekstri, lægri launakostnaður en áætlanir gerðu ráð fyrir, sala á leiguíbúðum bæjarfélagsins við Ólafsveg 32 og Hvanneyrarbraut 42 til Leigufélagsins Bríetar ehf. og jákvæð þróun varðandi lífeyrskuldbindingar.
Tölulegar staðreyndir
Eignir samstæðu Fjallabyggðar voru í árslok samtals kr. 6.731 millj. þar af voru eignir A-hluta kr. 6.015 millj. Skuldir og skuldbindingar í árslok 2022 námu kr. 2.361 millj. Langtímaskuldir samstæðunnar voru í árslok alls kr. 128,8 millj. og hafa því lækkað um kr. 156,1 millj. á árinu. Afborganir langtímaskulda næsta árs eru kr. 33,5 millj. Eigið fé nam kr. 4.370 millj. hjá samstæðunni í árslok og er eiginfjárhlutfall bæjarfélagsins 64,9%. Lífeyrisskuldbindingar nema kr. 1.609 kr. millj. í árslok.
Veltufé frá rekstri samstæðunnar nam kr. 485 millj. eða 12.6% af tekjum, en var á hinn bóginn kr. 331,2 millj. árið 2021 (10.1%). Handbært fé frá rekstri samstæðunnar lækkaði um kr. 46,4 millj. á árinu og nam í árslok kr. 366,8 millj. Veltufjárhlutfall bæjarfélagsins er því 1,23 sem verður að teljast mjög gott. Fjárfestingar 2022 námu kr. 475 millj. Ný langtímalán voru að fjárhæð kr. 5,2 millj. Vaxtaberandi skuldir samstæðunnar námu í árslok alls kr. 128,8 millj. og hafa því lækkað um kr. 156,1 millj. á árinu.
Rekstur sveitarfélaga
Skuldir sveitarfélaga og erfiðleikar í rekstri hafa mikið verið í umræðunni undanfarið, sérstaklega eftir að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi út bréf til tæplega helmings sveitarfélaga í landinu með athugasemdum vegna slæmrar fjárhagslegrar stöðu þeirra. Algengustu athugasemdirnar sem eftirlitsnefndin gerir við sveitarfélög eru að þau standist ekki fjárhagsleg viðmið eða sýni neikvæða rekstrarniðurstöðu út frá viðmiðum um framlegð frá rekstri, veltufé og rekstrarniðurstöðu.
Eins er skemmst að minnast válegra tíðinda úr sveitarfélaginu Árborg þar sem skuldir þess sveitarfélags er í kringum 28 milljarðar, sem þýðir um 2,5 milljónir á hvern íbúa.
Í 64. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. megi ekki vera hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum. Þessar fréttir hafa eðlilega vakið íbúa til umhugsunar um hvernig staða mála er hér í Fjallabyggð. En skuldahlutfall í ársreikningi 2022 hjá Fjallabyggð er samkvæmt reglugerð einungis 20,5%.
Það eru miklar áskoranir sem fylgja því að reka sveitarfélag vel. Sveitarfélögin í landinu fara með þriðjung af opinberum útgjöldum og annast mikilvægasta hlutann af allri nærþjónustu við íbúa svo sem fræðslumál, félagsþjónustu, skipulags- og byggingamál, umhverfismál og brunavarnir, allt sem þessum málaflokkum fylgir og meira til. En tekjur sveitarfélaganna eru að mestu leyti fastmótaðar með lögum um tekjustofna sveitarfélaga og framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Framkvæmdir og viðhald
Hér í Fjallabyggð stöndum við frammi fyrir þeirri ánægjulegu staðreynd að skuldir sveitarfélagsins eru litlar. Hér hefur ríkt aðhald og ábyrg fjármálastjórn og ekki hafa verið tekin lán fyrir þeim framkvæmdum sem sveitarfélagið hefur ráðist í. Hins vegar stöndum við frammi fyrir því að við ,,skuldum“ í viðhald. Mikið af því húsnæði sem er í eigu bæjarfélagsins er komið til ára sinna og þarfnast mikils viðhalds, má þar nefna sundlaugina á Siglufirði, Þjónustumiðstöðina, grunnskólann á Ólafsfirði, Skálarhlíð, slökkvistöðina á Siglufirði og Tjarnarborg.
Nú er unnið að endurbótum á Skálarhlíð sem reiknað er með að kosti um 30 milljónir. Framundan eru einnig nýjar framkvæmdir s.s. viðbygging við grunnskólann í Ólafsfirði, gatnagerð og undirbúningsvinna á Vallarbraut, en samtals eru áætlaðar kr. 180 milljónir af framkvæmdafé ársins í þetta tvennt. Einnig verður farið í 1. áfanga á endurnýjun þjóðvegar í þéttbýli í Ólafsfirði með gerð gangstéttar- göngu- og hjólreiðastíga frá áningarstaðnum við Brimnes að gatnamótum við Þverbrekku. Vegagerðin mun taka þátt í þeim kostnaði með Fjallabyggð.
Í samvinnu við Vegagerðina eru einnig stór verk í gangi s.s. endurnýjun stálþils í innri höfn á Siglufirði og gerð nýrrar þekju sem og lenging á Skarðsvegi upp að nýju bílaplani við nýjan skíðaskála í Skarðsdal.
Fegrum Fjallabyggð
Mjög góð þátttaka var í verkefninu Fegrum Fjallabyggð en alls tóku 356 íbúar þátt í kosningu um þau verkefni sem fólk vildi að myndu raungerast. Á næstu tveimur árum verður farið í þau fimm verkefni sem hlutu kosningu. Í sumar verða leiksvæðin við Fossveg og Laugarveg á Siglufirði endurnýjuð, útbúin míní-golfvöllur við tjaldsvæðið á Ólafsfirði og sett um flokkunarstöð fyrir ferðafólk í Ólafsfirði. Á næsta ári verður síðan sett upp ,,apa-róla“ hjá tjaldsvæðinu á Ólafsfirði og lítil bátabryggja út í Langeyrarhöfn á Siglufirði.
Fjölskylduvænasta tjaldsvæði landsins
Tjaldsvæðið á Ólafsfirði verður að mínu mati eitt besta og fjölskylduvænasta tjaldsvæði landsins þegar fyrirhuguðum framkvæmdum verður lokið, með ótal spennandi afþreyingarmöguleikum fyrir fólk á öllum aldri með sundlaug, íþróttahús, ærslabelg, apa-rólu, míní-golfi, frisbí-golfi, flottum gönguleiðum og fallegu umhverfi auk þess sem nýtt og afar gott þjónustuhús er fyrir hendi. En nú er í undirbúningi 9 holu frisbí-golfvöllur sem settur verður upp í sumar, ásamt míní-golfvellinum og þeim hreystitækjum sem bærinn á.
Vor í lofti og sól í sinni
Nú eru vorverkin í fullum gangi, grasið farið að grænka og sólin að láta sjá sig í ríkari mæli. Ferðafólk komið á stjá. Fyrsta skemmtiferðaskipið þetta sumarið hefur lagst að bryggju í Fjallabyggð og von er á 31 skemmtiferðaskipi í ár.
Við tökum flest sumrinu fagnandi eftir dimman og annasaman vetur og lífið breytir um takt. Að vera jákvæður er val og gerir tilveruna svo miklu auðveldari auk þess sem þær systur gleði og jákvæðni eru smitandi.
Um leið og ég þakka ykkur öllum fyrir ánægjulegt og gott samstarf þennan fyrsta vetur minn sem bæjarstjóri Fjallabyggðar vil ég óska ykkur öllum gleðiríkra tíma framundan, vona að þið hafið sól í sinni og hoppið hamingjusöm út í hið íslenska, margbreytilega, fallega sumar.
Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri