Á fundi hafnarstjórnar þann 9. maí sl. var Stefna Fjallabyggðarhafna 2022 til 2030 samþykkt. Afgreiðsla hafnarstjórnar var svo staðfest af bæjarstjórn á fundi 11. maí sl. með öllum greiddum atkvæðum. Yfirskrift stefnunnar er Fjölbreytt og örugg hafnarstarfsemi. Stefnan er afurð mikillar vinnu fjölmargra og var ferlið með þeim hætti að verkefnisstjórn, sem saman stóð af aðalmönnum í hafnarstjórn, fundaði alls fimm sinnum. Haldnir voru tveir opnir fundir með hagaðilum á og við hafnarsvæðin ásamt og að ráðgjafi tók sérstaklega viðtöl við stærri hagaðila á og við hafnarsvæðin.
Fram kemur í stefnunni að leiðarljós hennar sé að „Með samstöðu byggjum við upp fjölbreytta, örugga og faglega hafnarstarfsemi sem mætir þörfum íbúa og atvinnulífs“. Einnig eru sett þar fram gildi Fjallabyggðarhafna en þau eru Samvinna, því saman veitum við fjölbreytta og framúrskarandi þjónustu, og Fagmennska, enda vinnum við af fagmennsku með öryggi að leiðarljósi.
Í stefnunni eru sett fram tilgreind markmið fyrir Fjallabyggðarhafnir í heild og fyrir hvora höfn fyrir sig ásamt skilgreindum aðgerðum sem miða að því að ná framsettum markmiðum.
Einnig er í stefnunni lýst framtíðarsýn Fjallabyggðarhafna og hlutverki ásamt að lýsa hvernig skuli unnið með stefnuna og að hana skuli taka til árlegrar umræðu þar sem staða og árangur skuli metin og stefnan eftir atvikum endurskoðuð.
Í inngangsorðum hafnarstjóra koma fram þakkir til allra þeirra sem að mótun stefnunnar komu fyrir frábæra vinnu í stefnumótunarferlinu.
Stefna Fjallabyggðahafna 2022-2030.