Staða deiliskipulags í miðbæ Siglufjarðar

Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 30. maí að heimila T.ark arkitektum f.h. Samkaupa hf. og KSK eigna ehf. að vinna að tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Siglufjarðar með það að markmiði að útbúa nýja lóð fyrir verslunarkjarna sem myndi m.a. hýsa nýja verslun Samkaupa hf. ásamt öðrum verslunum og/eða þjónustu. Tillagan var samþykkt til auglýsingar á fundi bæjarstjórnar 29. október og kynnt á opnum íbúafundi þann 6. nóv. sl. Athugasemdafrestur var frá og með 13. nóvember 2024 til og með 2. janúar 2025.

 

Þátttaka á íbúafundi og samráði var mjög góð og bárust alls 32 umsagnir í skipulagsgátt. Það ferli sem nú tekur við er að T.ark arkitektar f.h. Samkaupa hf. og KSK eigna ehf. munu svara efnislega öllum þeim athugasemdum sem bárust og leggja þau svör fyrir Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar. Nefndin gefur svo Bæjarstjórn Fjallabyggðar ráðgefandi álit um hvort breytingar og aðlögun skipulagsins eftir samráð sé fullnægjandi eða hvort æskilegt sé að vinna frekari breytingar, kjósi Samkaup hf. og KSK eignir ehf. að halda áfram með verkefnið.

 

Vandað verður til verka við úrvinnslu málsins og tryggt að þeim lögum og stefnum sem liggja fyrir við skipulagsgerð sveitarfélaga verði fylgt.