03.03.2004
Snjóflóðavarnargarðarnir Stóriboli og Litliboli sunnan við Siglufjörð hafa enn sannað gildi sitt en nú liggur fyrir að snjóflóð sem féllu í þekktum snjóflóðafarvegum á Siglufirði um miðjan janúarmánuð voru stærri og féllu lengra en menn höfðu talið en mikill snjór var þarna á þessum tíma allt fram í byrjun febrúar. Örlygur Kristfinnsson hjá Veðurstofunni á Siglufirði segir að í snjóflóðahrinu vestanlands og norðan sem fylgdi óveðri sem gekk yfir landið dagana 13. til 18. janúar hafi tvö stór snjóflóð fallið í Ytra-Strengsgili og Jörundarskál og meðfram leiðigörðunum Stórabola og Litlabola sunnan Siglufjarðar. Örlygur segir að varnargarðarnir sunnan bæjarins hafi þarna sannað varnarmátt sinn með því að bægja flóðunum frá byggðinni. Flóðin hafi uppgötvast 18. janúar þegar óveðrinu létti og menn telji nú nokkuð víst að þau hafi fallið 14. janúar en þann dag hafi reyndar nokkur hús verið rýmd á Siglufirði. Féllu 100 metra niður fyrir endann á Stórabola"Núna síðustu daga eftir þíðuna sem hefur staðið frá 10. febrúar hefur komið í ljós að þessi snjóflóð hafa verið stærri og fallið lengra en greina mátti í fyrstu. Þannig hefur flóðið úr Strengsgilinu fallið um 100 metra niður fyrir endann á varnargarðinum Stórabola og brotið á leið sinni grindverk við frárennslisræsi lítillar tjarnar þar í farveginum. Þá er talið líklegt að snjóflóðin tvö hafi náð saman og skarast þar sem gamli fjarðarvegurinn liggi á þessum stað," segir Örlygur.Hann segir garðana hafa verið reista til þess að verja stóran hluta af suðurhluta Siglufjarðar þar sem oft hafi þurft að rýma hús áður. Þær rýmingar séu hins vegar eiginlega alveg úr sögunni með tilkomu varnargarðanna. "Þess má geta að Stóriboli hefur áður sannað gildi sitt eða árið 1999 þegar hann leiddi stórt snjóflóð frá byggðinni. Þannig að það er tvímælalaust mikið gagn af þessum varnargörðum," segir Örlygur að lokum. Frétt af mbl.is