Aðalfundur Sparisjóðs Siglufjarðar var haldinn 25. febrúar sl. og þar var samþykkt að taka tilboði Sparisjóðs Mýrasýslu í Borgarnesi um kaup á öllu stofnfé Sparisjóðs Siglufjarðar. Fyrir átti Sparisjóður Mýrasýslu um 40% stofnfjár í Sparisjóði Siglufjarðar en Sparisjóður Mýrasýslu greiðir stofnfjáreigendum um 50 milljónir króna fyrir þau 60% sem eftir stóðu.
Kaupin voru samþykkt með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins og er búist við að málið verði afgreitt á næstu dögum.
Sparisjóður Siglufjarðar var stofnaður 1873 og fagnar því 130 ára afmæli sínu um þessar mundir. Hjá sjóðnum starfa 23 en þar af starfa 15 manns við skráningu iðgjalda, og tengd verkefni, fyrir lífeyrissjóði og er stærsti viðskiptavinurinn Kaupþing. Að sögn Ólafs Jónssonar, sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Siglufjarðar, hefur reksturinn ekki gengið sem skyldi að undanförnu og í fyrra var 105,8 milljóna króna tap á rekstrinum. „Tapið er tilkomið vegna mikilla afskrifta en almennur rekstur hefur gengið mjög vel. Með sameiningu við Sparisjóð Mýrasýslu er verið að styrkja starfsemi Sparisjóðs Siglufjarðar þar sem sterkur bakhjarl kemur að rekstrinum,“ sagði Ólafur í samtali við local.is.
Upphaflega voru 58 stofnfjáreigendur í Sparisjóði Siglufjarðar og var Sparisjóður Mýrasýslu þar á meðal með stóran hlut en heimamenn á Siglufirði eiga innan við 20% stofnfjár. Að sögn Ólafs verður engin breyting á starfsmannahaldi hjá Sparisjóði Siglufjarðar og verður sparisjóðurinn rekinn í óbreyttri mynd. Frétt af www.local.is