Skólastarf með eðlilegum hætti, viðbragðsáætlun fyrir skóla í vinnslu

Allt skólastarf í landinu getur hafist með eðlilegum hætti næstu daga og vikur þrátt fyrir heimsfaraldur inflúensunnar A(H1N1)v.
Þetta er tekið fram af gefnu tilefni því talsvert er um fyrirspurnir frá skólastjórnendum, foreldrafélögum og fleirum um möguleg áhrif inflúensufaraldursins á starfsemi skóla á komandi haustönn.

Nánari upplýsingar er hægt að finna á www.influensa.is, www.almannavarnir.is eða www.landlaeknir.isMálið var rætt nýlega á fundi samráðsnefndar sóttvarnalæknis, ríkislögreglustjóra og fulltrúa ráðuneyta. Í framhaldi af því vill sóttvarnalæknir árétta eftirfarandi:


  1. Inflúensufaraldurinn er tiltölulega vægur og skapar engar forsendur fyrir skorðum við skólahaldi. Skólastarf á því að geta hafist með eðlilegum hætti.
  2. Unnið er að viðbragðsáætlun vegna inflúensufaraldurs fyrir skóla landsins í samvinnu menntamálaráðuneytis og skólastjórnenda. Gert er ráð fyrir að sú áætlun verði tilbúin fyrir 1. september 2009.
  3. Skólastjórnendur eru hvattir til að halda því á lofti við nemendur og starfsmenn skóla að hreinlæti sé það sem mestu máli skipti til að draga úr smithættu. Þar ber fyrst að nefna handþvott en einnig að fólk hafi á sér einnota pappírsþurrkur til að hnerra eða hósta í. Vísað er á heimasíðuna influensa.is þar sem frekari upplýsingar er að finna.
  4. Veikist nemandi, þannig að einkennin bendi til inflúensu, er honum ráðlagt að halda sig heima í sjö daga frá upphafi veikinda.
  5. Ekki er mælt með fyrirbyggjandi veirulyfjameðferð í skólum.
Fimm leiðir til að forðast flensuna:

1.      Þvoðu þér um hendurnar
2.      Notaðu alltaf bréfþurrkur þegar þú hóstar eða hnerrar
3.      Hentu notuðum bréfþurrkum beint í ruslið
4.      Haltu fyrir vitin ef bréfþurrkur eru ekki til taks
5.      Vertu heima ef þú færð flensu