18.10.2006
Stoðvinafélag Minjasafnsins á Akureyri stendur fyrir dagskrá um sr. Matthías Jochumsson í Amtsbókasafninu á Akureyri næstkomandi laugardag, fyrsta vetrardag kl 14.Stoðvinafélag Minjasafnsins var stofnað á 40 ára afmæli þess árið 2002 og hefur síðan stutt við starfsemi þess á ýmsan hátt. Meðal annars hefur það efnt til fyrirlestra og sýninga um Arthur Gook trúboða og hómópata, og um orgelleik og orgelleikara í kirkjum Eyjafjarðar. Dagskráin um sr. Matthías verður flutt sem stutt erindi sem sýna manninn, prestinn og þjóðskáldið frá ýmsum sjónarhornum. Matthías var sóknarprestur á Akureyri frá 1887-1900, var með litríkari borgurum á Akureyri á sinni tíð og tók heilshugar þátt í gleði og sorgum samferðafólks síns. Sérstakur gestur verður Þórunn Valdimarsdóttir sagnfræðingur, höfundur bókarinnar Upp á sigurhæðir, sem einmitt kemur í bókabúðir þessa dagana. Í hléi syngur stúlknakór frá Akureyrarkirkju undir stjórn Arnórs Vilbergssonar, og Amtskaffi verður opið. Eftir dagskrána verður hús skáldsins, Sigurhæðir, opið til skoðunar. Þar bjó sr. Matthías ásamt konu sinni Guðrúnu Runólfsdóttir um 17 ára skeið. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.