Bæjarráð Fjallabyggðar fundaði nú í hádeginu vegna Síldarævintýrisins á Siglufirði og þess árgreinings sem verið hefur við embætti lögreglustjóra Norðurlands eystra vegna umsóknar um tækifærisleyfi fyrir bæjarhátíðina. Eftirfarandi niðurstaða er komin í málið:
Lagt fram bréf Innanríkisráðuneytis, dagsett 28. júlí 2016, þar sem fram kemur að kvörtun Fjallabyggðar vegna umsagnar embættis lögreglustjóra Norðurlands eystra út af umsókn um tækifærisleyfi fyrir bæjarhátíðina "Síldarævintýrið á Siglufirði", 29. - 31. júlí, hafi verið framsend atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu til þóknanlegrar meðferðar.
Bæjarstjóri upplýsti bæjarráð um viðræður milli bæjaryfirvalda og lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra.
Bæjarráð samþykkir samhljóða eftirfarandi bókun:
"Eftir viðræður bæjaryfirvalda við lögreglustjóraembættið á Norðurlandi eystra hafa aðilar komið sér saman um eftirfarandi lausn á ágreiningi aðila um greiðslu löggæslukostnaðar vegna bæjarhátíðarinnar "Síldarævintýrið á Siglufirði 2016".
Fjallabyggð mun ekki greiða umræddan löggæslukostnað nema að æðra stjórnvald eða dómstólar ákveði að Fjallabyggð beri að greiða þennan kostnað. Fjallabyggð mun eðlilega hlýta þeim úrskurði.
Lögreglustjóraembættið mun í framhaldi af þessari ákvörðun bæjarráðs gefa út jákvæða umsögn til Sýslumannsembættisins varðandi tækifærisleyfi fyrir hátíðina.
Gott samstarf hefur ávallt verið á milli bæjaryfirvalda í Fjallabyggð og lögreglunnar á Norðurlandi eystra og verður það óbreytt, þrátt fyrir framangreindan ágreining."