Eins og flestir vita gerði Grunnskóli Siglufjarðar sér lítið fyrir og sigraði þriðja árið í röð riðilinn sinn í Skólahreysti og þar með rétt til að taka þátt í úrslitakeppninni sem fer fram í beinni útsendingu á RÚV, fimmtudaginn 30. apríl klukkan 20:00.
Sjónvarpið sýnir frá riðlakeppninni á n.k. laugardag kl. 18:00.
Krakkarnir sem kepptu fyrir Grunnskóla Siglufjarðar voru Arnar Már Sigurðarson, Guðrún Ósk Gestsdóttir, Svava Stefanía Sævarsdóttir og Alexander Örn Kristjánsson.
Arnar keppti í dýfum og upphífingum, hann gerði sér lítið fyrir og vann báðar greinarnar. Tók 48 dýfur og 30 upphífingar. Guðrún Ósk gerði 46 armbeygjur og lenti í 3. sæti og hékk í 3:00 í hreystigreipinni og lenti þar í öðru sæti. Svava og Alexander fóru hraðabrautina á besta tíma ársins eða 2:19 og voru einungis 8 sekúndum frá Íslandsmetinu. Liðið fékk 63 stig, var 15 stigum á undan næsta skóla.
Þess má geta að Sindri Þór Jónsson var lánaður til Grunnskóla Ólafsfjarðar og keppti í dýfum og upphífingum. Sindri náði frábærum árangri og var í öðru sæti á eftir Arnari í báðum greinum. Stórkostlegur árangur hjá þessu frábæra íþróttafólki.
Áttatíu nemendur og sjö kennarar fóru til Akureyrar til að styðja við bakið á keppendum og það má líka segja að sigur hafi unnist í áhorfendastúkunni, því stuðningurinn var áberandi bestur frá Siglufirði. Það verður mjög spennandi að fylgjast með úrslitakeppninni og sjá hvort að liðið nái að toppa árangurinn frá því í fyrra en þá náði lið Siglfirðinga þriðja sæti.