Í Fjallbyggð keppist fólk nú við að prjóna. Karlar, konur og börn, aðfluttir og fráfluttir, gamalmenni og unglingar hafa tekið upp prjónana og keppast nú við að prjóna 17 km. langan trefil. Ætlunin er að nýta trefillinn til að tengja saman byggðarkjarnana alveg frá miðbæ Siglufjarðar í gegnum Héðinsfjarðargöng inn í miðbæ Ólafsfjarðar við vígslu gangana í lok september nk. þegar göngin verða formlega opnuð.
Hugmyndina að þessu frábæra framtaki á Fríða Gylfadóttir listamaður á Siglufirði og hefur hún staðið í ströngu síðustu daga við að koma verkefninu af stað.
Eftir að byggðakjarnarnir hafa verið tengdir saman er ætlunin að búta trefillinn niður í minni trefla, þæfa þá og sauma í þá merki Fjallabyggðar og selja til styrktar góðgerðarmála.
Hugmyndir eru uppi, um að setja upp prjóna á helstu samkomustöðum sveitarfélagsins sem hægt verði að grípa í þegar tækifæri gefst. Það má því búast við að prjónað verði á biðstofum heilsugæslunnar, á hárgreiðslustofunum, öllum verslunum, í bakaríinu, í apótekinu, í frímínútum, hjá grunnskólunum, á bifreiðaverkstæðum, og kaffistofum út allt sveitarfélagið.
Fríða hvetur allt prjónafólk á Siglufirði, Ólafsfirði og um land allt til að sameinast og senda inn búta eða bara garn. Litir, gerð garns eða prjónamunstur skiptir ekki máli, bútarnir þurfa bara að vera 20 cm. breiðir.
Áhugasamir geta haft samband við listamanninn í síma 896-8686.
Auk þess er hægt að senda búta og garn (sem er vel þegið) á skrifstofu sveitarfélagsins Gránugötu 24 580 Siglufirði eða Ólafsveg 4 625 Ólafsfirði.