Samstarf Grunnskóla Fjallabyggðar og Menntaskólans á Tröllaskaga hefur tekið stakkaskiptum eftir að unglingadeildin flutti til Ólafsfjarðar. Nemendum 8.-10. bekkjar var boðið að taka þátt í sápuboltamóti MTR í haust og öllum nemendum í 6.-10. bekk boðið upp á grillaðar pylsur.
Nemendur Grunnskólans eru nú staðnemendur í valgreinum í MTR ásamt því að þeir nemendur sem hafa lokið hæfniviðmiðum Grunnskólans í tilteknum bóknámsgreinum eru staðnemar í framhaldsskólaáföngum. Hugmyndir hafa komið fram um frekara samstarf í listgreinum og einnig er vilji til að skoða miðannaráfanga.
Nýlega var stofnað starf umsjónarkennara grunnskólanema við MTR. Því starfi er ætlað að efla og bæta þjónustu við grunnskólanema sem stunda nám við MTR. Einnig hefur Grunnskólinn fengið kennara í MTR til þess að kenna valnámskeið.
Samstarf um FabLab er hafið og mikill áhugi að koma því á laggirnar í formi valgreina í unglingadeild GF og/eða sem áfanga í MTR, samvinnu kennara í GF og MTR og hugsanlega með þátttöku atvinnulífs á svæðinu þar sem mikil tækniþekking ásamt vélum sem notaðar eru í FabLab eru til staðar í MTR og hjá fyrirtæki á Ólafsfirði.