Sameining lögregluumdæma

Hús sýslumannsembættisins og lögreglu á Siglufirði
Hús sýslumannsembættisins og lögreglu á Siglufirði
Nú styttist í sameiningu nokkurra lögregluumdæma á Íslandi en sú breyting tekur gildi um áramótin. Hingað til hafa sýslumenn vítt og breitt um landið farið með hlutverk lögreglustjóra, hver í sínu umdæmi. 
Breytingarnar fela það í sér að embætti verða sameinuð og stækkuð og um leið verða löggæsluverkefni skilin frá verkefnum sýslumanna og þá verða til lögreglustjórar, sem sinna löggæslunni eingöngu. Við þessar breytingar mun Akureyri, Dalvík og Fjallabyggð sameinast Þingeyjarsýslunum þannig að úr verður eitt lögreglustjóraembætti á Norðurlandi eystra. Sýslumannsembættin sameinast að sama skapi. Nýr lögreglustjóri verður Halla Bergþóra Björnsdóttir, sem nú er settur sýslumaður á Akranesi. Hún og hennar starfslið verður með aðstöðu á lögreglustöðinni á Akureyri. Sýslumaður í hinu sameinaða embætti verður Svavar Pálsson, sem nú gegnir embætti sýslumanns á Húsavík. Hann verður með skrifstofu á Húsavík en útibú sýslumanns verða starfrækt áfram á sömu stöðum og verið hefur. Þá verður lögreglan áfram með varðstofur á Siglufirði, Dalvík, Akureyri, Húsavík og Þórshöfn. Fjöldi lögreglumanna í þessu nýja embætti losar þá fjórða tuginn.
Svavar Pálsson mætti á fund bæjarráðs Fjallabyggðar í síðustu viku og fór yfir stöðu embættisins. Fram kom í máli hans að ekki er gert ráð fyrir fækkun stöðugilda við embættið, umfram breytingar á staðsetningu sýslumannsins.