Samantekt bæjarstjórnar Fjallabyggðar

Samantekt bæjarstjórnar Fjallabyggðar  „Rekstrar- og fjárhagsleg úttekt.“:

Sjá skýrslu HLH hér og sammþykktir bæjarstjórnar hér

 

-------------------

Samantekt bæjarstjórnar:

Inngangur

Með samningi, dags. 20. desember 2012, tók HLH ehf. að sér að gera úttekt á rekstri Fjallabyggðar með það að markmiði að koma fram með tillögur að hagræðingu í rekstri, þannig að reksturinn skili meiri framlegð.

 

·        Við vinnslu á verkefninu var rætt við forstöðumenn og farið yfir fyrirkomulag rekstrar viðkomandi stofnunar.

·        Rekstararútgjöld og tekjur sveitarfélagsins voru borin saman við rekstrarútgjöld og tekjur hjá 10 sveitarfélögum, sambærilegum að stærð.

·        Einnig átti skýrsluhöfundur fundi með bæjarstjóra og bæjarstjórnarfulltrúum þar sem farið var yfir ýmis málefni tengd verkefninu.

Markmiðið

Markmiðið með verkefninu var að koma með tillögur að hagræðingu í rekstri, þannig að reksturinn skili meiri framlegð til að standa undir framkvæmdum og jafnvel til að lækka skatta.

Skuldir Fjallabyggðar

Fram hefur komið að skuldahlutfall Fjallabyggðar var aðeins um 102% í árslok 2012.

Því eru skuldir sveitarfélagsins vel innan þeirra marka sem sveitarstjórnarlög heimila.                
Það hefur vakið athygli að skuldahlutfall sveitarfélagsins hefur lækkað frá 2011 – 2013 og það hefur einnig vakið athygli að rétt um 50% af skuldum sveitarfélagsins er vaxtaberandi.

Af hverju var skýrslan trúnaðarmál                                                                              
Bæjarstjórn tók þá ákvörðun að halda skýrslunni sem trúnaðarmáli, þar til búið var að fara yfir ábendingar skýrsluhöfundar.

Þetta var gert að fengnu áliti þar sem m.a. var verið að fjalla um persónur, starfshlutfall og tillögur um breytingu á stjórnsýslu bæjarfélagsins.

·        Skýrslan kemur með sterkar vísbendingar um að launakostnaður Fjallabyggðar sé of hár.

Áherslur bæjarstjórnar

Það er mat bæjarstjórnar að vel hafi tekist til varðandi staðsetningu á þjónustu við íbúa.

Hér má nefna sem dæmi;

1.     Það er leikskóli í báðum bæjarkjörnum

2.     Það er grunnskóli í báðum bæjarkjörnum

3.     Það er slökkvistöð í báðum bæjarkjörnum

4.     Það er almenn þjónusta við útgerð á báðum stöðum

5.     Það eru íþróttamannvirki og sundlaugar á báðum stöðum

6.     Það er almenn þjónusta á skrifstofum bæjarfélagsins á báðum stöðum

7.     Það er Menntaskóli í Fjallabyggð og er hann staðsettur í Ólafsfirði

8.     Það er sýslumaður og löggæsla með aðsetur á Siglufirði

 

Lögð er einnig áhersla á að nú þegar eru m.a. kennarar, nemendur og aðrir starfsmenn sem ferðast á milli bæjarkjarna til að sinna störfum sínum fyrir íbúa Fjallabyggðar.

Hins vegar telur bæjarstjórn eðlilegt að taka á nokkrum þáttum til hagræðingar og tengist markvissari vinnu á skrifstofu og þar með stjórnsýslu bæjarfélagsins.

Öll þjónusta við íbúa verður hins vegar áfram til staðar á báðum stöðum en bókhald og skjalaumsýsla  mun hins vegar verða í ráðhúsinu á Siglufirði.

Lögð er hins vegar áhersla á neðanritað er varðar þjónustu við íbúa í Ólafsfirði sérstaklega.

1.     Tveir starfsmenn verða alla daga vikunnar í þjónustu fyrir íbúa á bæjarskrifstofunni í  Ólafsfirði. Þar verður hægt að reka öll almenn erindi eins og verið hefur.

2.     Bæjarstjóri, deildarstjórar stjórnsýslu og fjármáladeildar, tæknideildar og fjölskyldudeildar  verða til viðtals eftir þörfum og óskum íbúa í Ólafsfirði.

3.     Aðstaða nefnda bæjarfélagsins verður með sama hætti og verið hefur út kjörtímabilið.

 

Bæjarstjórn tekur undir áherslur skýrsluhöfundar

·        Það er tillaga skýrsluhöfundar til bæjarstjórnar að þeirri stefnu verði fylgt að reka sveitarfélagið þannig að reksturinn og eignir standi undir nýframkvæmdum og afborgunum lána.

Öfugt við margar aðrar sveitarstjórnir stendur bæjarstjórn Fjallabyggðar því frammi fyrir þeim valkosti að geta hagrætt í rekstri til að fjármagna framkvæmdir og/eða lækkað skatta og gjöld á íbúa sveitarfélagsins.

Í sjálfu sér getur reksturinn gengið upp að öllu óbreyttu, en þá þarf að viðhalda óbreyttum sköttum og gjöldum og taka lán fyrir nýjum framkvæmdum. Þar með þyrfti að grípa til aðgerða til hagræðingar síðar til að standa undir lántökum vegna framkvæmda.

·        Það er mat skýrsluhöfundar að Fjallabyggð hafi alla möguleika á því að skipa sér fremst á bekk á meðal þeirra sveitarfélaga sem hafa litlar skuldir og eru með lágar álögur á íbúa. Bæjarstjórn hefur ákveðið að fara að ráðleggingum hvað varðar rekstrarútgjöld til að ná þessu markmiði fyrir íbúa Fjallabyggðar.

·        Skýrsluhöfundur hefur valið þann kostinn að benda á það sem talið er mögulegt að gera án þess að skerða þjónustu við íbúa.

·        Í þeim tillögum, sem hér eru settar fram, þarf hins vegar að grípa til ýmissa aðgerða, sem m.a. munu leiða til breytinga á stöðu starfsmanna.

·        Í afgreiðslum bæjarstjórnar er ekki gengið lengra en fordæmi er fyrir í sambærilegum sveitarfélögum.

Mikilvægt var því að ná samstöðu innan bæjarstjórnar á milli meirihluta og minnihluta um þessar aðgerðir.

·        Slík samstaða er mikilvæg við framgang verkefnisins og ekki hvað síst fyrir íbúa bæjarfélagsins. Framkvæmd ákvarðana bæjarstjórnar verður unnin með stéttarfélögum og kjarasviði sveitarfélaga. Hér verður farið að lögum og allir samningar við stéttarfélög verða virtir.

 

Tilfærslur og uppsagnir vegna breytinga á skipuriti.

1.     Sameina á starf íþrótta- og tómstundafulltrúa og forstöðumanns íþróttamannvirkja í eitt starf vegna breytinga á skipuriti.

·        Núverandi starfsmönnum hefur verið boðið að sækja um nýja stöðu í fjölskyldudeild.

2.     Starf fræðslu- og menningarfulltrúa er lagt niður vegna breytinga á skipuriti,

·        Núverandi starfsmanni hefur verið boðið nýtt starf markaðs- og menningarfulltrúa í stjórnsýslu- og fjármáladeild.

3.     Starf umhverfisfulltrúa verður lagt niður og verður þeirri vinnu stýrt af deildarstjóra tæknideildar og verkefni falin öðrum starfsmönnum Fjallabyggðar og/eða tímabundnum ráðningum yfir sumarið.

Aðrar áherslur í breytingu á skipuriti.

Skólastjórar, yfirhafnarvörður og slökkviliðsstjóri heyra samkvæmt nýju skipuriti beint undir bæjarstjóra. 

Fagleg hlið fræðslumála t.d. sérfræðiþjónusta, mun framvegis vera á ábyrgð deildarstjóra fjölskyldudeildar, skólastjórnenda og starfsmanna fræðslustofnana bæjarfélagsins.

Starfsmaður í ráðhúsi bæjarfélagsins mun auk þess vinna með skólastjórnendum.

f.h. bæjarstjórnar Fjallabyggðar

Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri