14.05.2004
Síldarminjasafnið vann til verðlauna í safnakeppni Safnaráðs Evrópu í Aþenu um síðustu helgi. Bæjarstjórn Siglufjarðar bókaði eftirfarandi á fundi sínum í gær af þessu tilefni:“Í tilefni frábærs árangurs Síldarminjasafnsins í safnakeppni Safnaráðs Evrópu óskar bæjarstjórn safnverði og forsvarsmönnum FÁUM innilega til hamingju. Árangurinn er sannarlega glæsilegur og ber vott um þann metnað og stórhug sem ríkir innan félagsins. Safnið hefur borið hróður Siglufjarðar víða og mun eflaust halda því áfram um ókomin ár. Hér er um ómetanlega perlu að ræða fyrir okkur Siglfirðinga því safnið segir ekki einvörðungu sögu síldveiða við Ísland. Á safninu er sögu okkar Siglfirðinga einnig gerð góð skil og sýnt fram á hve mikilvægu hlutverki bærinn og síldariðnaðurinn gegndu í eina tíð fyrir þjóðarbúskapinn allan. Verðlaun á borð við Micheletti- verðlaunin eru ekki bara viðurkenning heldur er einnig um að ræða kynningu á bæði Siglufirði og Síldarminjasafninu, kynningu sem seint verður metin að fullu til fjár. Um 40 þúsund eru í Evrópu og voru 40 söfn tilnefnd til verðlaunanna og er sum hver þeirra meðal þekktustu safna Evrópu. Sé litið á árangurinn í þessu samhengi verður hann ennþá glæsilegri. Bæjaryfirvöld munu eftir því sem efni leyfa reyna að koma til móts við þarfir félagsins við frekari uppbyggingu safnsins í framtíðinni. Bæjarráð ítrekar hamingjuóskir sínar og hvetja FÁUM til dáða og að haldið verið áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið til þessa.