04.07.2003
Síldarminjasafnið á Siglufirði hefur verið metið til samkeppni um verðlaunin "European Museum of the Year Award 2004." Þetta kemur fram í frétt frá safnaráði. Í fréttinni frá safnaráði segir: "Í gær, 3. júlí, kom hingað til lands Dr. Wim van der Weiden, safnstjóri hjá Naturalis, náttúruminjasafni Hollands í Leiden þar í landi og formaður European Museum Forum. EMF stendur árlega fyrir samkeppninni European Museum of the Year Award en safnaráð tilnefndi á dögunum Síldarminjasafnið á Siglufirði til samkeppninnar árið 2004. Mun Dr. Van der Weiden heimsækja Síldarminjasafnið dagana 4. og 5. júlí í því skyni að meta safnið til samkeppninnar. Þátttaka safns í EMYA er bundin þeim skilyrðum að annað hvort sé um að ræða safn sem nýlokið hefur við umfangsmikla uppbyggingu, endurbætur eða viðbætur, eða að um sé að ræða nýtt safn, sem stofnsett hefur verið á sl. tveimur árum. Síldarminjasafnið hlaut tilnefningu sína fyrir þá umfangsmiklu uppbyggingu og viðbætur sem eru í gangi hjá safninu, en nýlokið er einum hluta þessa, uppsetningu bræðsluminjasafns í Gránu."Frétt af visir.is