Römpum upp Ísland

Aðgengi á Íslandi er oft takmarkandi fyrir hreyfihamlaða. Því er mikilvægt að koma upp römpum eða tryggja aðgengi með öðrum hætti. Á heimasíðunni www.rampur.is geta einkaaðilar sótt um styrki til að koma upp römpum eða annars konar lausnum við innganga sína og tryggja þannig að fólk með hreyfihömlun hafi gott aðgengi að þeirri þjónustu sem verið er að bjóða.

Ég hvet fyrirtæki í Fjallabyggð til að kynna sér verkefnið ,,Römpum upp Ísland“ sem hefur það að markmiði að bæta aðgengi fatlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum á Íslandi. Þarna er tækifæri til að fá styrk til að bæta aðgengi einstaklinga með hreyfihömlun að þeirri þjónustu sem í boði er. Verkefnin yrðu síðan unnin í samráði við tæknideild Fjallabyggðar.

Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, er hvatamaður verkefnisins. Stjórn ,,Römpum upp Ísland“ hefur einsett sér að gera 1000 veitingastaði og verslanir í einkaeigu, þar sem aðgengi er ábótavant, aðgengilegar hreyfihömluðum fyrir 10. mars 2026. Þetta verður gert í góðri samvinnu við sveitarfélög, húseigendur og íbúa.

Sótt er um styrk á heimasíðu sjóðsins www.rampur.is og umsækjendum er svarað við fyrsta tækifæri í samræmi við forgangsröðun stjórnar og stöðu verkefnisins. Samþykki stjórn sjóðsins umsóknina fær umsækjandi í hendur verkáætlun og, eftir atvikum, hönnunargögn. Áður en framkvæmd hefst ber umsækjanda að kynna sér viðkomandi gögn, veita upplýst samþykki og, eftir atvikum, afla samþykkis meðeiganda og gera ráðstafanir, verði röskun á rekstri á meðan á framkvæmd stendur.

Sigríður Ingvarsdóttir
Bæjarstjóri