Reitir - 24 þátttakendur frá sjö löndum

Þriðja árið í röð fara Reitir, alþjóðlegt samvinnuverkefni, fram á Siglufirði og nú dagana 2. - 14. júlí. 
Markmið Reita er að móta varanlegan grundvöll á Siglufirði fyrir skapandi fólk til sköpunar og samvinnu í spennandi umhverfi, með samfélagsmynd og sögu bæjarins að leiðarljósi. Í ár eru þátttakendur 24 frá sjö löndum. Íslendingar eru 11 og svo eru þátttakendur frá Danmörku, Svíþjóð, Bretlandi, Jórdaníu, Kína og Frakklandi. 
Mikil áhersla er lögð á fjölbreytni starfsgreina innan hópsins og þátttakendur eru hvattir til að fara nýjar leiðir og vera opnir fyrir breytingum á vinnuháttum. Þátttakendur Reita hafa frelsi til að vinna hvers kyns verkefni, til dæmis í formi skúlptúra, gjörninga, myndverka eða textavinnu. Útkoma eða stefna verkefnisins mun ekki skýrast fyrr en verkefnið er byrjað.

Formleg opnun Reita í ár verður í dag kl. 18:00 í Alþýðuhúsinu. 

Þátttaka bæjarbúa getur orðið margvísleg, en fyrst og fremst eru bæjarbúar hvattir til að fylgjast með hópnum sem vinnur út frá Alþýðuhúsinu, á vefsetri verkefnisins, www.reitir.com, eða á Facebook.