Reglum um úthlutun byggðakvóta breytt

Frá Ólafsfjarðarhöfn
Frá Ólafsfjarðarhöfn
Sjávarútvegsráðuneytið hefur auglýst breytingar á sérákvæðum vegna úthlutunar byggðakvóta í Fjallabyggð. Breytingarnar eru gerðar að beiðni bæjarráðs Fjallabyggðar og er ætlað að auka líkurnar á að það náist að uppfylla skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á tilskildum tíma.

Auk þeirra breytinga sem auglýstar eru, fór bæjarráð fram á að ráðuneytið heimili úthlutun byggðakvóta til báta í þremur hlutum, eins og heimilt er samkvæmt 6. grein reglugerðar nr. 439/2007 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2006/2007.

Samkvæmt auglýsingu ráðuneytisins eru sérákvæði fyrir Fjallabyggð eftirfarandi:

„Ákvæði reglugerðar 439 frá 16. maí 2007 gilda með eftirfarandi viðauka/­breytingum:

1. Í stað þeirrar viðmiðunardagsetningar sem miðað er við í b- og c- liðum 1.gr. reglugerðarinnar, varðandi skráningu fiskiskipa og eigenda/leigutaka og lögaðila í viðkomandi byggðarlagi, verði miðað við 1. júlí 2007.

2. Í stað 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur: Fiskiskipum er skylt að landa til vinnslu innan sveitarfélagsins afla sem nemur, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerð þessari og skal úthlutun til þeirra ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði er uppfyllt.

3. Byggðakvóta Siglufjarðar 204 þorskígildistonnum skal úthlutað til fiskiskipa á Siglufirði sem uppfylla skilyrði úthlutunarreglna.

4. Byggðakvóta Ólafsfjarðar skal með sama hætti úthlutað til fiskiskipa á Ólafsfirði.

5. Byggðakvóta skal úthlutað til fiskiskipa í hlutfalli af samtölu landaðs afla í viðkomandi byggðarlagi fyrir tímabilið 1. júlí 2006 til 30. júní 2007 og aflamarki í þorskígildum talið hjá viðkomandi skipi þann 30. júní 2007. Með aflamarki er átt við skilgreiningu Fiskistofu á aflamarki í þorskígildum.“

Lesa auglýsingu sjávarútvegsráðuneytis