Ræsing í Fjallabyggð

Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samstarfi við Olís, Samkaup Úrval, Sigló-Hótel, Vélfag ehf., Sparisjóð Siglufjarðar, Ramma hf, Arion banka og sveitarfélagið Fjallabyggð leitar að góðum viðskiptahugmyndum sem auka við flóru atvinnulífs í sveitarfélaginu. Einstaklingar, hópar og fyrirtæki eru hvött til þess að senda inn viðskiptahugmyndir og sækja um þátttöku í verkefninu. Dómnefnd velur umsóknir til áframhaldandi þróunar og fullbúin viðskiptaáætlun er unnin, með það í huga að verkefnið sé tilbúið til fjárfestakynningar og reksturs.

Þátttakendur fá 12 vikur til að vinna viðskiptaáætlun fyrir verkefnin sín en á þeim tíma fá aðstandendur verkefnanna mikinn stuðning verkefnisstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar við gerð viðskiptaáætlunarinnar og hugsanlega við vöruþróun og frumgerðasmíði.

Allir geta sótt um þátttöku í verkefninu. Verkefnið leggur áherslur á viðskiptahugmyndir sem;
- Eru atvinnuskapandi í Fjallabyggð
- Hvetja til rannsóknartengdrar nýsköpunar
- Auka framboð á atvinnu fyrir fólk með háskólamenntun
- Sem eru ekki í beinni samkeppni við önnur fyrirtæki á svæðinu
- Teymið bak við hugmyndina sé hæft og tilbúið að vinna að hugmyndinni
- Eru tæknilega framkvæmanlegar á þessum tímapunkti
- Hafa raunverulegan markhóp sem hægt er að sækja á

Dómnefnd skipuð af samstarfsaðilum verkefnisins velur allt að fjórar umsóknir sem verða ræstar til frekari vinnslu.

Dómnefnd getur hafnað öllum umsóknum og valið að; auglýsa verkefnið upp á nýtt, fela verkefnisstjóra að vinna með umsækjendum við að bæta umsóknir eða hvetja til samstarfs einstaklinga, fyrirtækja eða hópa til að styrkja umsóknirnar og verkefnin.

Verðlaun:
Einungis verkefni sem fullklára viðskiptaáætlun eiga rétt á verðlaunum. Sigurvegari hlýtur allt að 1 milljón í verðlaun. Dómnefnd getur úrskurðað að engin viðskiptaáætlun hljóti fyrsta sætið eða að deila eigi fyrstu verðlaunum á fleiri þátttakendur.

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Óli Hilmisson, verkefnisstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, í síma 522 9433 eða á netfanginu goh@nmi.is.

Umsóknafrestur rennur út 4. mars 2015.

Nánari upplýsingar má einnig lesa á heimasíðu Nýsköpunarmiðstöðvar og þar má einnig nálgast umsóknareyðublað.