Rökleysuíviljun

Sjávarútvegsmál hafa mikið verið í umræðunni að undanförnu sem endranær en nú er það svokölluð línuívilnun sem hefur verið mest áberandi. Umræðan um þetta mál hefur verið með þvílíkum ólíkindum að ekki verður orða bundist. Línuívilnun gengur í stuttu máli út á það að þeir bátar sem byggja afkomu sína á línuveiðum fá ákveðna kvótaaukningu en nokkur hluti smábátaflotans er í þeirri stöðu. Það eru hins vegar ekki allir línubátar sem fá þessa aukningu heldur aðeins þeir sem láta beita línuna í landi þar sem það skapar meiri atvinnu heldur en þeir bátar sem hafa tekið upp þá tækni að beita með svokölluðum trektum, en þá "beitist" á línuna jafnóðum og hún er lögð í sjó. Þegar maður fer yfir þessi atriði í línuívilnunarmálinu þá verður maður satt að segja kjaftstopp. Það á semsagt að ívilna þeim aðilum sem stunda línuveiðar og beita línuna í landi og rökin eru þau að það skapi meiri atvinnu heldur en notkun á trektum. Mér er þá spurn hvort ekki sé hægt að ívilna þeim rækjuverksmiðjum á landinu sem handpilla rækju í stað þess að nota vélar, ja eða ívilna þeim fiskvinnslustöðvum sem handflaka og handfletja allan fisk, eða bara ganga alla leið og ívilna þeim sérstaklega sem engar vélar nota við fiskvinnsluna, hvort sem er á sjó eða í landi? Það mætti þá kannski útfæra þetta í landbúnaði líka og ívilna sérstaklega þeim sem handmjólka kýrnar. Á þessu er engin eðlismunur og hreint með ólíkindum að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar séu að beita slíkri vitleysu sem rökum á þingi árið 2003. Fyrir utan það svo að í raun liggja engin skynsamleg rök fyrir því að það eigi að ívilna einhverri einni veiðiaðferð umfram aðrar og það er aðalatriði málsins. Umræða einstakra þingmanna um sjávarútvegsmál að undanförnu er með þeim hætti að mætti halda að hér væri ekki um að ræða fjöregg þjóðarinnar og okkar helstu útflutningsgrein heldur einhvern félagslegan jöfnunarsjóð sem óhætt sé að ráðskast með eftir því hvernig pólitískir vinda blása hverju sinni. Einstaka þingmenn halda ríkisstjórn Íslands í nokkurs konar gíslingu og hóta öllu illu ef þeirra fáránlegi málflutningur nær ekki fram að ganga og endar auðvitað með því að sjávarútvegsráðherra er knúinn til þess að setja fram þessa ómynd sem frumvarp um línuívilnun er. Hvað liggur að baki málflutningi háttvirtra þingmanna Kristins H. Gunnarssonar, Einars K. Guðfinnssonar og Einars Odds? Jú, þeir lofuðu þessu í kosningabaráttunni á Vestfjörðum og miðaldra húsmæður og smásalar af höfuðborgarsvæðinu samþykktu eitthvað í þessari líkingu á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins, líklega af því að þetta leit svo vel út á blaði! Þessir annars ágætu þingmenn sýna atvinnugreininni og vanda landsbyggðarinnar þvílíkt virðingarleysi með sínum málflutningi að hálfa væri nóg. Þingmenn virðast algerlega vera búnir að missa sjónar á því hvernig núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er ætlað að virka og ganga fram í umræðunni með algerri óvirðingu við atvinnugreinina. Það er lágmarkskrafa að þingmenn allra flokka sýni þessari undirstöðuatvinnugrein þá virðingu að ekki sé ráðskast með einhverjar staðbundnar og kosningavænar útfærslur þegar einstaka poturum innan þingflokka þykir henta svo, sama hvar í flokki þeir standa. Þær útgerðir sem hafa aðlagað sig kerfinu hafa spjarað sig vel og í því umhverfi sem fiskveiðistjórnunarkerfið hefur skapað er innbyggð krafa um hagræðingu í greininni sem öllum er til góðs til lengri tíma, þó svo að undirritaður sé alls ekki í öllu sammála þessu kerfi sem hefur ýmsa áþreifanlega galla sem augljóslega þarf að laga.Frumvarp um línuívilnun er eitt það allra vitlausasta sem lagt hefur verið fram í sjávarútvegsmálum á þinginu á löngum tíma og er umhugsunarefni hvers konar hugmyndafræði verður til þess að menn veita þvílíkri endaleysu brautargengi. Undirritaður þekkir vel þann vanda sem margar sjávarútvegsbyggðir eiga við að glíma en það að beita sjávarútveginum, fjöreggi þjóðarinnar, sífellt sem einhvers konar félagslegu bótakerfi í samfélaginu líkt og landbúnaðarkerfinu er algerlega ófært og eru fjölmargar aðrar leiðir færar til að stuðla að jöfnuði í hinum dreifðu byggðum landsins. Ég hvet þingmenn til þess að íhuga málið vel og huga í alvöru að því á hvaða tímum þeir lifa og starfa. Línuívilnun er engin lausn á vanda þeirra byggða sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi nema síður sé. Eftir Þóri Hákonarson