Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjórana á Norðurlandi Eystra hafa ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum. Þessi ákvörðun er byggð á að lítið hefur rignt á svæðinu undanfarið og veðurspá næstu daga sýnir heldur ekki neina úrkomu af ráði. Þetta þýðir að aðeins Austurland, Vestur Skaftafellssýsla og Vestmannaeyjar eru ekki á óvissu- eða hættustigi vegna gróðurelda.
Í dag var slökkvilið Akureyrar kallað út vegna sinubruna við Lundeyri í norðanverðu Holtahverfi. Mikinn reyk lagði yfir nágrennið. Í gær varð einnig sinubruni á Ólafsfirði, sem er í fyrsta skipti í langan tíma á því svæði.
Almenningur er hvattur til að sýna aðgát með opinn eld á svæðinu, ekki síst þar sem gróður er þurr. Það þarf ekki mikinn neista til þess að af verði stórt bál. Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112.
Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings.
Hér á heimasíðunni má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr hættu af gróðureldum, einnig eru góðar upplýsingar á https://www.grodureldar.is/
Fréttin er fengin af heimasíðu Almanavarna