Tjaldsvæðið í Ólafsfirði
Fjallabyggð auglýsir eftir aðila/aðilum sem kunna að hafa áhuga á að taka að sér rekstur og umsjón með tjaldsvæðum Fjallabyggðar á Siglufirði og í Ólafsfirði árin 2022-2024. Um er að ræða þrjú tjaldsvæði, við íþróttamiðstöðina í Ólafsfirði, í miðbæ Siglufjarðar og sunnan við snjóflóðavarnargarðinn Stóra Bola á Siglufirði.
Möguleiki er á að sækja um rekstur allra tjaldsvæðanna eða tjaldsvæði annars bæjarkjarnans.
Rekstraraðili þarf að hafa náð 20 ára aldri, hafa bílpróf og bíl til umráða. Sumarrekstur tjaldsvæða hefst að jafnaði 15. maí og lýkur 15. október, ef aðstæður leyfa. Samningur er gerður til þriggja ára með möguleika á framlengingu tvisvar sinnum eitt ár.
Helstu verkefni:
- Rekstraraðili er ábyrgur fyrir að halda skrá yfir rafmagnssölu og seldar gistinætur og skilar skýrslu þar um til Fjallabyggðar a.m.k. tvisvar yfir tímabilið.
- Gerð er krafa um sýnileika rekstraraðila með viðveru á tjaldsvæðum a.m.k. tvisvar á dag, oftar á álagstímum.
- Rekstraraðili skal vera í samstarfi við Fjallabyggð varðandi kynningu tjaldsvæðanna á heimasíðu og facebooksíðu sveitarfélagsins.
- Gerð er krafa um að rekstraraðili hagi rekstri sínum með þeim hætti að hann þjóni sem best breiðum hópi notenda svæðisins.
- Á opnunartíma svæðisins er gerð krafa um að salernisaðstaða sé þrifin daglega og umgjörð tjaldsvæðanna sé hin snyrtilegasta.
- Rekstraraðili skal annast og bera ábyrgð á innheimtu gistináttaskatts þegar það á við og skil á honum til hins opinbera.
- Rekstraraðili skal annast og bera ábyrgð á innheimtu þjónustugjalda samkvæmt gjaldskrá Fjallabyggðar.
- Rekstraraðili sinnir minniháttar viðhaldi á þjónustuhúsum og leitar til Fjallabyggðar ef sinna þarf stærri viðhaldsverkefnum.
Við mat á umsóknum er horft til reynslu og þekkingu á ferðaþjónustu og rekstri svo og mati á meðfylgjandi gögnum og greinargerð.
Umsækjendur eru vinsamlegast beðnir að senda inn umsókn á Rafrænni Fjallabyggð
Með umsókn skal skila eftirfarandi gögnum:
- Starfsferilskrá þar sem menntun og reynsla umsækjanda er tilgreind ásamt stuttri greinargerð um sýn á rekstur tjaldsvæðanna til næstu 5 ára.
- Sakavottorði
- Búsforræðisvottorði
- Skuldleysisvottorði vegna opinberra gjalda
- Skuldleysisvottorði vegna greiðsla í lífeyrissjóð.
Umsóknarfrestur er til og með 25. mars 2022
Frekari upplýsingar veita Linda Lea Bogadóttir markaðs- og menningarfulltrúi í síma 4649100, lindalea@fjallabyggd.is eða Ríkey Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála í síma 4649100, rikey@fjallabyggd.is