Ágætu íbúar Fjallabyggðar.
Helgin 2 og 3. október næstkomandi verður tilkomumikil.
Stórviðburður í sögu Fjallabyggðar verður að veruleika þar sem allir taka þátt í að sameina tvo frábæra byggðarkjarna í eitt raunverulegt og samtengt sveitarfélag.
Íbúar Siglufjarðar og Ólafsfjarðar sem og gestir þeirra og Vegagerðar munu streyma í Héðinsfjörð og verða við vígslu á göngum sem tengir Fjallabyggð saman, samgöngulega séð.
Allir eru boðsgestir þennan dag og hefur bæjarstjórn ákveðið að bjóða gestum í veglegt kaffisamsæti þar sem bæjarbúar Fjallabyggðar sameinast og drekka kaffi með sínum gestum.
Tíu rútur munu stöðugt aka um Héðinsfjörð, á milli bæjarkjarna, til að koma í veg fyrir umferðar öngþveiti í göngum og eða í Héðinsfirði. Lögð er rík áhersla á öryggi íbúa og að flestir geti komið á staðinn og verið við opnun og vígslu þessara stórkostlegu mannvirkja.
Til að tryggja aðkomu bæjarbúa að vígslunni verður komið fyrir búnaði í báðum byggðarkjörnunum þannig að íbúar geti fylgst með þessum atburði beint í gegnum skjávarpa.
Kaffisamsætið verður í íþróttamiðstöð Fjallabyggðar Í Ólafsfirði að þessi sinni.
Undirbúningsnefnd hafði hér úr vöndu að ráða er varðar staðarval fyrir svo marga gesti en niðurstaða hennar og bæjarráðs byggir á skoðun á eftirtöldum forsendum m.a..
1. Góð aðkoma að íþróttamiðstöðinni
2. Stórt og mikið hús í eigu Fjallabyggðar
3. Þjónustufólk á einum stað
4. Kostnaður við hljóðkerfi og annan búnað tekur mið af einu húsi
5. Heildarfjármagn frá vegagerð og bæjarfélagi hafði áhrif
6. Ávörp verða flutt á einum stað
7. Skemmti og gamanmál á einum stað
8. Betri umferðarstjórnun
9. Boðsgestir á vegum Vegagerðar eru bundnir flugi og geta ekki farið á milli staða
10. Gott fordæmi - bæjarbúar Fjallabyggðar sameinist þennan gleðidag á einum stað.
Vil hér í lokin nota tækifærið og þakka þeim fjölmörgu sem hafa unnið að þessu verkefni og látið þennan dag verða að veruleika. Fjallabyggð byggir á ótrúlegri sögu og menningu. Bættar samgöngur verða til að gjörbreyta ferðaþjónustu á norðanverðum Tröllaskaga á næstu árum og saga svæðisins og menning mun nú verða öllum aðgengilegri.
Fjallabyggð verður nú í alfaraleið. Ráðherrar, fyrrum þingmenn og núverandi, bæjarfulltrúar núv
erandi og fyrrverandi eiga miklar þakkir fyrir tvö stórvirki sem bæta munu mannlífið Í Fjallabyggð á næstu árum.
Saga Fjallabyggðar er rétt að hefjast en Héðinsfjarðargöng og Menntaskólinn á Tröllaskaga er gott veganesti inn í framtíð sem byggir á að íbúar ákváðu að sameinast, ná því markmiði að vera vel yfir tvö þúsund til að halda uppi og standa undir þeirri þjónustu sem bæjarbúar kjósa hverju sinni.
Við sem íbúar skulum njóta þessa dags og helgarinnar, margt annað verður til skemmtunar og fróðleiks þessa helgi og vil ég þakka þeim fjölmörgu sem munu gera helgina eftirminnilega.
Sú dagskrá verður auglýst sérstaklega.
Hafið þakkir fyrir góðan undirbúning og viðtökur ágætu bæjarbúar – sameinuð stöndum við.
Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri.