Leikskólarnir Leikhólar og Leikskálar verða með opið hús mánudaginn 7. febrúar í tilefni af degi leikskólans sem ber nú upp á sunnudegi 6. febrúar. Leikskólarnir eru opnir frá kl 8:00 til kl 16:00.
Hvetjum við bæjarbúa til að koma í heimsókn og fylgjast með því frábæra starfi sem fram fer í leikskólanum okkar. Foreldrar, ömmur, afar, systkini og aðrir bæjarbúar eru velkomir að skoða starf skólans, hitta kennara og börn í skemmtilegu spjalli.
Dag leikskólans, 6. febrúar ber að þessu sinni upp á sunnudag. 6. febrúar er merkilegur dagur í íslenskri leikskólasögu því þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín og var því fagnað í fyrra á 60 ára afmæli félagsins.
Dagur leikskólans verður nú haldinn í fjórða sinn, leikskólakennarar og annað starfsfólk leikskóla hafa á undanförnum árum, ásamt börnunum, gert daginn eftirminnilegan á margan hátt.
Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, mennta- og menningarmála-ráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla. Tilgangurinn er að auka jákvæða umræðu um leikskólann, vekja umræðu um hlutverk leikskóla og starf leikskólakennara og kynna starfið út á við.