Valbergshúsið. Mynd: af veraldarvefnum
Sigurhæð ses., félag áhugafólks um safnamenningu í Ólafsfirði hefur undirritað samning um kaup á húsinu við Strandgötu 4. Félagið fær strax afnot af helmingi neðri hæðar, 2/3 af vöruskemmu sem er norðan við húsið, alla efri hæðina og kjallara sem er undir öllu húsinu. Fyrstu hluti hússins var byggður rétt fyrir aldamótinn 1900 en aðalbyggingatími hússins var árið 1912. Húsið hefur gengt ýmsum hlutverkum í gegnum tíðina og nú síðast hefur verið rekin þar verslunin Valberg. Fyrirhugað er að setja upp svokallaða Ólafsfjarðarstofu, þar sem m.a. er gert ráð fyrir að Náttúrugripasafnið verði staðsett svo og myndasafn Brynjólfs Sveinssonar, ásamt sögu Ólafsfjarðar og þeim söfnum sem félaginu hefur áskotnast. Einnig er fyrirhugað að gera grein fyrir íþróttasögu Ólafsfjarðar m.a. skíðasögunni.
Á laugardaginn var húsnæðið til sýnis fyrir gesti og gangandi og kom fjöldi fólks að líta á það auk þess sem aðstandendum Sigurhæða ses var óskað til hamingju með þetta stóra skref í að gera sögu Ólafsfjarðar betri skil auk þess sem aðgengi að safninu verður mun betra en það sem er í dag, með Náttúrugripasafnið á 3ju hæð í Arionbankahúsinu og með þeirri tilraunastarfsemi sem gerð var með safnahús í húsinu að Aðalgötu 15 Ef vel tekst til verður þetta enn ein rós í hnappagat safnamála í Fjallabyggð.
Hollvinafélagið biðlar nú til heimamanna um að aðstoða við að byggja upp Ólafsfjarðarstofu bæði með fjárframlögum og ekki síst með sjálfboðavinnu við lagfæringar á húsinu en ljóst er að leggja þarf töluverða vinnu í að koma húsnæðinu í viðunandi horf til að geta hýst þá safnastarfsemi sem fyrirhugað er að vera með. Stefnt er að opna húsið til sýninga næsta vor.
Framkvæmdanefnd Sigurhæða ses.: Alda María Traustadóttir, Þorsteinn Ásgeirsson, Anna María Guðlaugsdóttir og Björn Þór Ólafsson
Fjöldi gesta lagði leið sína í Valbergshúsið, væntanlega Ólafsfjarðarstofu, á laugardaginn.
Fyrirhugað er að gera skíðasögu Ólafsfjarðar góð skil. Fyrsti vísir af því.
Verið að gera klárt áður en gestir mæta á svæðið og að sjálfsögðu sér Steini um uppáhellingar.
Myndir: Björn Þór Ólafsson