Á fundi bæjarstjórnar Fjallabyggðar þann 12.
desember, var fjárhagsáætlun ársins 2014 og þriggja ára áætlun 2015 – 2017 samþykkt.
Í greinargerð bæjarstjóra kom fram að þrátt fyrir tilkynningu frá Innanríkisráðuneytinu þar
sem athygli er vakin á því að í undirbúningi eru breytingar á lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga þar sem
sveitarfélögum yrði veitt heimild til að hækka útsvar um 0,04% úr 14,48% í 14,52% var samþykkt samhljóða að útsvarið
verði óbreytt eða 14,48%.
Er varðar gjaldskrárhækkanir hafði bæjarráð lagt til við bæjarstjórn að breytingar á
þjónustugjaldskrám yrðu teknar til endurskoðunar. Með þeirri ákvörðun vildi bæjarráð leggja sitt af mörkum til að
sporna við verðbólgu og á þann hátt auka kaupmátt í komandi kjarasamningum. Bæjarstjórn samþykkti tillögu
bæjarráðs með einni undantekningu en öll þjónustugjöld fyrir utan sorphirðugjöld munu standa óbreytt. Þjónustugjöld
verða hins vegar tekin til endurskoðunar ef í ljós kemur að markmið um þjóðarsátt ganga ekki eftir.
Skuldir Fjallabyggðar við lánastofnanir eru að lækka þrátt fyrir miklar framkvæmdir á tímabilinu.
Skuldirnar fara úr því að vera um 708 m.kr í árslok 2013 í að vera 531 m.kr. í árslok 2017.
Áætlað er að framkvæma fyrir 269.0 m.kr. á árinu 2014 og er stærsta framkvæmdin við Grunnskóla
Fjallabyggðar á Siglufirði upp á 175.0. m.kr.
Í greinargerð bæjarstjóra kom fram að helstu tölulegar niðurstöður fyrir árið 2014 eru eftirfarandi.
- Rekstrarniðurstaða verður 91.0 m.kr.
- Framkvæmt verður fyrir um 269.0 m.kr.
- Afborganir langtímalána er um 67.7 m.kr.
- Handbært fé í árslok 2014 verður um 60.9 m.kr.
- Veltufé frá rekstri er 14.48% í hlutfalli við skatttekjur
- Skuldahlutfall Fjallabyggðar verður 77% eða rétt rúmlega helmingur af viðmiðunarmörgum hjá eftirlitsnefnd með
fjármálum sveitarfélaga sem er 150%.
- Skuldir lækka um 250 m.kr á kjörtímabilinu en þær verða í árslok 2014 við lánastofnanir um
661.5 m.kr.
- Engin lán verða tekin á árunum 2014 – 2017
- Framkvæmdargeta bæjarfélagsins á árunum 2014 – 2017 er 1000 m.kr.
Rétt er að leggja áherslu á að með aðgerðum bæjarstjórnar á árinu 2013 eru sannarlega að
skapast forsendur til að lækka álögur á íbúa Fjallabyggðar þrátt fyrir hátt framkvæmdarstig.
Í stuttu máli má segja að staða Fjallabyggðar sé traust og styrkist með framsetningu á áætlun
fyrir árin 2014 – 2017.
Greinargerð (stefnuræðu) bæjarstjóra og fjárhagsáætlun 2014 má lesa í heild sinni á heimasíðu Fjallabyggðar.