03.08.2008
Á Laugardaginn opnaði Kristján Möller, samgönguráðherra, nýjan örnefnavef í Síldarminjasafninu á Siglufirði. Á vefnum er að finna safn örnefna frá ysta hluta Tröllaskaga, það er Hvanndölum, Héðinsfirði, Siglunesi, Siglufirði og Úlfsdölum, sem Helgi Guðmundsson, ættfræðingur, tók saman á fyrri hluta tuttugustu aldar. Slóð vefsíðunnar er http://snokur.is/
Það er félag áhugamanna um örnefni í Siglufirði og nágrenni, Snókur, sem unnið hefur að þessu verkefni undanfarin ár. Vinnan fólst m.a. í umritun handritatexta á stafrænt form, söfnun ljósmynda af svæðinu, merkingu örnefna inn á ljósmyndir og gerð heimasíðu. Hitann og þungann af verkinu bar Hannes P. Baldvinsson en með honum unnu að verkinu Páll Helgason og Örlygur Kristfinnsson. Tæknileg uppsetning síðunnar var í höndum Magnúsar Sveins Jónssonar, margmiðlunarfræðings.