15.03.2006
Á fréttavefnum dagur.net, (Dagur) má sjá frétt um neytendakönnun á leikskólagjöldum í og við Eyjafjörð. Fréttin er eftirfarandi:"Neytendasamtökin könnuðu leikskólagjöld í 8 sveitarfélögum við Eyjafjörð: Akureyri, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppi, Hörgárbyggð, Ólafsfirði, Siglufirði og Svalbarðsstrandarhreppi. Ef miðað er við átta tíma vistun með fullu fæði eru Akureyrarbær og Grýtubakkahreppur með lægsta verðið, 22.325 krónur. Leikskólagjöld á Akureyri og í Grýtubakkahreppi eru reyndar með þeim lægstu á landinu, ef miðað er við nýlega könnun ASÍ. Í Eyjafjarðarsveit og Svalbarðsstrandarhreppi er gjaldið rúmlega 25.000 krónur og á Siglufirði 26.300 krónur. Það er lægra verð en í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, að Reykjavíkurborg undanskilinni. Hæstu gjöldin eru í Hörgárbyggð, Dalvíkurbyggð og Ólafsfirði, eða tæpar 30.000 krónur, sem er þó mjög sambærilegt við gjaldskrár fjölmennra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Ekki verður því annað séð en að sveitarfélögin við Eyjafjörð standi sig vel og bjóði upp á gjaldskrá sem er sambærileg eða jafnvel lægri en gengur og gerist, segir í frétt frá Neytendasamtökunum. Munur á hæsta og lægsta verði er 33%, en 44% ef um einstæða foreldra er að ræða. Öll sveitarfélögin veita afslátt fyrir einstæða foreldra og námsmenn."Á þessu má sjá að leikskólagjöld á Siglufirði eru í samræmi við það sem gerist í Eyjafirði og er rétt að fagna því að Neytendasamtök skuli gera slíkar kannanir og birta þær.Byggt á frétt á dagur.net.