Námsferð á Tröllaskaga

Frá fundi með nemendum HÍ í gær.
Frá fundi með nemendum HÍ í gær.
Þessa viku munu nemendur á þriðja ári náms í landfræði og ferðamálafræði við Háskóla Íslands dvelja í Fjallabyggð.
Um er að ræða árlega ferð nemenda á þessum námsbrautum og að þessu sinni varð utanverður Tröllaskagi fyrir valinu og ætla nemendur að beina sjónum sínum bæði að Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð. Megintilgangur ferðarinnar er að þjálfa nemendur í að vinna að sjálfstæðum rannsóknaverkefnum á sínu sviði, og jafnframt að þeir kynnist aðstæðum í viðkomandi byggðarlögum sem best og auki þar með þekkingu sína á landinu og byggðinni. 

Verkefnin sem nemendur vinna tengjast m.a.: samgöngumálum; tilteknum hliðum ferðaþjónustunnar (t.d. gistingu eða afþreyingu); öðru atvinnulífi (t.d. sjávarútveg), samfélagsgerð (t.d. íbúasamsetningu og þróun hennar); opinbera þjónustu og framboð á þjónustu, og þannig mætti lengi telja. Að hverju verkefni vinna tveir nemendur saman.

Hópurinn sem telur alls 65 nemendur kom til Fjallabyggðar í gær og fengu þeir kynningu á sveitarfélaginu á sérstökum fundi þeirra með stjórnendum sveitarfélagsins.

Íbúar sveitarfélagsins munu verða nemendanna varir með ýmsu móti og munu t.d. einhverjir verða beðnir um að svara spurningalistum eða taka þátt í könnunum, aðrir munu fá nemendur í viðtöl o.s.frv.  Vinna nemandanna hefur oftar en ekki skilað góðum skýrslum, sem gagnast hafa aðilum í heimabyggð. Verður fróðlegt að fylgjast með vinnu hópsins og hverju það mun skila sér fyrir samfélagið.


Áhugasamir nemendur og kennarar fylgjast með kynningu sem stjórnendur sveitarfélagsins stóðu fyrir.


Alls er 65 nemendur frá HÍ í heimsókn.