Miðnæturganga

Fyrsta gönguferð Ferðafélagsins Trölla verður í kvöld, föstudaginn 25.júní. Mæting er við gömlu steypistöðina og verður gengið út á plan í Múlanum.

Lagt verður af stað kl. 22:00 og vonandi verður veður gott og hægt að njóta miðnætursólarinnar á planinu. Þessi ganga ætti að henta öllum og tilvalin fjölskylduganga, verðinu er einnig stillt í hóf eða 500 kr. fyrir 16 ára og eldri.

Langt er sennilega síðan Ólafsfjarðarmúli hefur verið jafn greiðfær eins og í dag. Þá er að sjálfsögðu um að ræða færð fyrir gangandi!!! Til undirbúnings ferðarinnar fóru félagsmen upp á plan á hjólum og verður að segjast að sjálfboðaliðasamtökin SEEDS hafa unnið frábært starf við að riðja stíg upp á plan. Leiðin er mjög skemmtileg og búið að riðja stíga í allar skriður á leiðinni og liggur við að hafi verið sópað á köflum. Mjög skemmtilegt er að hjóla leiðina en þó þarf að bera hjólið yfir helstu skriðurnar. Til hamingju Ólafsfirðingar, íbúar í Fjallbyggð og allir landsmenn með frábæra vinnu SEEDS!