Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur verið tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2020 í flokki framúrskarandi skólastarfs eða menntaumbóta. Skólinn er tilnefndur fyrir nýjar leiðir í skipulagi náms og kennslu með áherslu á valdeflingu nemenda, frumkvæði, sköpun og áræði.
Íslensku menntaverðlaunin verða afhent 13. nóvember nk. Íslensku menntaverðlaunin voru síðast veitt árið 2012 en þá höfðu þau verið veitt árlega frá árinu 2005.
Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum.
Verðlaunin eru veitt í þremur aðalflokkum:
- Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur
- Framúrskarandi kennari
- Framúrskarandi þróunarverkefni
Að auki verður veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.
Óskað var eftir tilnefningum í vor og bárust alls 111 tilnefningar. Viðurkenningaráð Íslensku menntaverðlaunanna hefur farið yfir þær og ákveðið hverjir hljóta tilnefningu til verðlaunanna árið 2020. Var það tilkynnt í gær.
Að verðlaununum standa Forseti Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Félag um menntarannsóknir, Grunnur, Kennaradeild HA, Listaháskóli Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið HÍ, Miðstöð skólaþróunar við HA, Samtök áhugafólks um skólaþróun og skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.
Sjá nánar um Íslensku menntaverðlaunin: https://skolathroun.is/menntaverdlaun/
Fjallabyggð óskar Menntaskólanum á Tröllaskaga innilega til hamingju með tilnefninguna.