Mennta- og menningarmálaráðuneytið
Opnað verður fyrir umsóknir um aukaúthlutun styrkja á sviði menningarstarfs og skapandi greina á allra næstu dögum. Stuðningurinn, sem nemur alls 500 milljónum kr., byggir á þingsályktun um fjárfestingarátak stjórnvalda til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldursins, sem samþykkt var á Alþingi þann 30. mars sl.
Áskorun listgreina er mismikil og því var sú leið farin við úthlutun fjármuna að gera hlutfallslega skiptingu í þremur flokkum út frá umfangi vandans þar sem til grundvallar lágu upplýsingar frá miðstöðvum lista, samtökum listgreina og listamönnum sjálfum um áhrif COVID-19.
„Við höfum átt í góðu samráði við grasrótina og samtök ólíkra listgreina um útfærslu þessa og ég fagna því að nú verði brátt opnað fyrir umsóknirnar. Innspýting af þessu tagi skiptir gríðarlegu máli fyrir stóran hóp listafólks í landinu. Á næstunni munum við einnig kynna annars konar aðgerðir sem einnig munu styðja við menningarlífið okkar. Ég lít á þessa fjármuni sem þýðingarmikla fjárfestingu til framtíðar – þetta eru skapandi tímar, þó nú séu erfiðir tímar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Framlögin skiptast sem hér segir:
- Kvikmyndasjóður 120 milljónir kr.
- Starfsemi atvinnuleikhópa 99 milljónir kr.
- Tónlistarsjóður 86 milljónir kr.
- Myndlistarsjóður 57 milljónir kr.
- Hönnunarsjóður, 50 milljónir kr.
- Bókmenntasjóður, 38 milljónir kr.
Þá verður 50 milljónum kr. varið til skráningar menningararfs.
Skilyrði fyrir styrkveitingunum nú verða eftirfarandi:
- Verkefnið hefjist eigi síðar en 1. september 2020 og verði lokið fyrir 1. apríl 2021.
- Um sé að ræða átaksverkefni sem styðji við fjölbreytta starfsemi á sviði lista og
menningar með áherslu á sköpun og virka þátttöku listamanna í menningarlífi landsmanna.
- Verkefnið uppfylli grunnmarkmið fjárfestingarátaksins um að styðja við eftirspurn og atvinnu til skamms tíma með arðbærum verkefnum.
- Sýnt sé fram á gildi verkefnis og mikilvægi þess fyrir landsmenn.
- Styrkveiting sé til undirbúnings, þróunar og framkvæmd verkefnis.
- Ítarlegar upplýsingar liggi fyrir um verkefnið, auk tímaáætlunar þess.
- Ekki verða veittir styrkir til þeirra sem njóta listamannalauna í 6 mánuði eða meira árið 2020.
Sótt er um styrkina á vef viðkomandi sjóðs. Stjórnir fyrrgreindra sjóða munu byggja mat á umsóknum á ofangreindum skilyrðum og almennum úthlutunarreglum sínum. Fjármála- og efnahagsráðuneyti mun taka saman skýrslu um árangur fjárfestingarátaksins og því verður ábyrgðaraðilum einstakra verkefna gert að greina frá t.d. hversu mörg störf sköpuðust og hvernig dreifing þeirra var milli kynja og landshluta.
Nánar á heimasíðu ráðuneytisins
Fréttin er fengin á vef ráðuneytisins.