Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði dagana 29. - 31. maí nk.

Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði hefst að nýju í lok maí eftir óhjákvæmilegar lokanir í mars og apríl. Opnað verður inn á sýningar og viðburði í takti við þær takmarkanir um mannamót sem fyrir liggja hverju sinni og gestir beðnir um að sýna tillit með fjarlægðir, handspritt og að snerta ekki neitt innandyra. Einnig að koma ekki á viðburði með einkenni af covid 19. 

29. - 31. maí 2020 - Gjörningar, sýningar, ljóð og tónleikar á vegum Alþýðuhússins á Siglufirði.

Kompan sýningaropnun 29. maí kl. 16.00 - Páll Haukur Björnsson
Gjörningadagskrá 29. maí kl. 17.00 - 19.00 - Listhópurinn Kaktus
Segull 67 sýningaropnun 30. maí kl. 14.00 - Ásdís Sif Gunnarsdóttir
Tónleikar 30. maí kl. 17.00 - Davíð Þór Jónsson
Ljóðalestur 30. maí kl. 18.05 - 18.20 - Sigurbjörg Þrastardóttir
Tónlistaspuni 30. maí kl. 18.25 - Davíð Þór Jónsson, Þórir Hermann Óskarsson, Framfari
Tónleikar og Joga 31. maí kl. 14.00 - Kira Kira og Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir

Gjörningaform myndlistar á sér langa sögu og er mjög viðurkennt form á listsköpun. Þar koma saman ólíkar listgreinar og sameinast í einhverskonar spuna eða fyrir fram gefnu flæði sem skilar sér í einstakri upplifun til áhorfandans.

Alþýðuhúsið hefur staðið fyrir Gjörningahátíð á Siglufirði í Fjallabyggð um Páska árlega síðan árið 2013 með þátttöku fjölda listamanna víðs vegar að úr heiminum í bland við heimamenn. Þar mætast ólíkir straumar og lífsviðhorf sem opna glugga í allar áttir og gefa þátttakendum tækifæri til að láta ljós sitt skína, kynnast öðru skapandi fólki og mynda tengsl. 

Gjörningahátíðin hefur farið fram á föstudaginn langa og á síðustu Páskum var svo bætt í upplifunina með tónlistadagskrá á laugardeginum og í ár bætist önnur sýning við og tvennir tónleikar. Með þeirri viðbót gefst tækifæri til að kanna enn frekar tengsl tónlistar við myndlist, kvikmyndagerð, listdans, ljóð og bókmenntir og hvernig listgreinarnar krossast og styðja hvor aðra. Mikil áhersla er lögð á að skapa grundvöll fyrir frjálsa sköpun og boða til leiks listamenn sem kunna að fara með það form. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu í ár verður páskahátíðin færð til 29. - 31. maí.

Listamennirnir sem taka þátt í dagskránni eru:

Listhópurinn Kaktus frá Akureyri mun sjá um gjörningadagskrá föstudaginn 29. maí.

Kaktus samanstendur af listamönnum úr ýmsum geirum lista og hefur á undanförnum 6 árum haldið úti sýninga og viðburðarými á Akureyri sem einnig þjónar sem vinnustofa. Virkir meðlimir kaktus eru mismargir á hverjum tíma en þau hafa sem hópur sett upp gjörninga víða, meðal annars á gjörningahátíð á Akureyri. 

Kaktusarnir sem koma fram í Alþýðuhúsinu eru Hekla Björt Helgadóttir, Karólína Baldvinsdóttir, Freyja Reynisdóttir, Egill Logi Jónsson, Brák Jónsdóttir, Arnar Ari Lúðvíksson.

Segull 67 - Ásdís Sif Gunnarsdóttir setur upp yfirlitssýningu á verkum sínum.

Ásdís Sif Gunnarsdóttir er fædd í Madison, Wisconsin, Bandaríkjunum og býr og starfar í Reykjavík. Ásdís Sif stundaði nám við UCLA í Los Angeles og við The School of Visual Arts í New York. Ásdís Sif er þekkt fyrir sýningar sínar í óhefðbundnum rýmum og vídeó innsetningar, sem fela í sér þrívídd og örvandi framsetningu ljóðaformsins með sjónrænum hætti. Hvert vídeó er sem sönglag, í framsetningunni blandar hún þeim innbyrðis og flytur ljóð meðan á sýningu stendur. Verk Ásdísar eru breytileg, allt frá stærri sýningum og vídeó innsetningum, til ljóðalesturs og ljósmyndasýninga. 

Kompan - Páll Haukur Björnsson opnar sýningu á nýjum verkum. 

Páll Haukur býr og starfar í Reykjavík og segir þetta um verkin sín.

Ef ætti ég að velja eina hugmynd til að lýsa tilfinningum mínum gagnvart listsköpun, myndi ég fá hana að láni úr The Bell Jar eftir Sylviu Plath. Þar segir hún: "ef það er merki um hugsýki að girnast tvo ósamþættanlega hluti samtímis [...] þá er ég fjandi hugsjúk." Í mínum huga lýsa þessi orð fyrst og fremst hinu hugsjúka ástandi nútímasamfélagsins og stöðugri þörf okkar til að reyna að halda í marga andhverfa hluti á sama tíma. Ég reyni með list minni að færa mig frá nokkurri eiginlegri hugmynd um merkingu, leyfi verkinu að standa á gatnamótum þar sem allir andhverfir og annars ósamþættanlegir hlutir eru eitt–í andartak að minnsta kosti, rétt áður en ákvörðunin er tekin. Á þennan hátt reyna skúlptúrar mínir að vera myndir, málverkin gjörningar, og innsetningarnar teikningar. Hugsanlega er þetta tilraun til að forðast önnur þunglamalegri vandamál sem eiga það til að vera fólgin í miðlum sem slíkum. 

Davíð Þór Jónsson 

Davíð flytur eigið verk sem samið er sérstaklega fyrir þessa tónleika 30. maí.  Einnig mun hann bjóða öðrum tónlistarmönnum sem staddir eru í Alþýðuhúsinu upp í tónlistaspuna.

Davíð Þór stundaði nám í Tónlistarskóla FÍH og fór í skiptinám til Þrándheims á vegum skólans og útskrifaðist vorið 2001. Árið eftir gaf hann út sína fyrstu sólóplötu, Rask. Hann hefur gert tónlist og hljóðmyndir fyrir fjölda leiksýninga, Tengdó, Hrærivélina, söngleikinn Leg, Baðstofuna, Héra Hérason, Manntafl, Mýs og menn, Dagbók djasssöngvarans og síðast Húsið sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu. Hann hefur einnig tónsett útvarpsleikrit og sjónvarpsverk af ýmsu tagi auk þess að semja tónlist fyrir dansverk. 

Davíð Þór hefur frá unga aldri leikið með flestum þekktari tónlistarmönnum landsins. Hann hefur einnig unnið náið með sviðslistafólki og myndlistarmönnum og mætti þar helst nefna Ragnar Kjartansson, en saman sköpuðu þeir tónlistar- og myndbandsverkin „The End“, framlag Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2009 og „Guð“. Davíð samdi og útsetti tónlistina og flutti ásamt Ragnari og hljómsveit. 

Davíðs Þór hefur hlotið margvísleg verðlaun, til dæmis Íslensku tónlistarverðlaunin og Grímuverðlaunin, auk þess sem tónlist hans úr kvikmyndinni Hross í oss hefur verið verðlaunuð á kvikmyndahátíðum í Evrópu. 

Kristín Björk Kristjánsdóttir 

Kira Kira sprettur úr jarðvegi leikgleði og ununar á gjöfulu samstarfi í framsækinni tónlist, kvikmyndum og myndlist. Hún vinnur með spuna, á innsæinu og í græskulausri forvitni að margs konar skapandi rannsóknarleiðöngrum sem kraftbirtast ýmist í tónleikum, á hljómplötum, í hljóðinnsetningum, kvikmyndagerð eða í tónsmíðum fyrir kvikmyndir og sjónvarp. Kira Kira birtist Kristínu Björk Kristjánsdóttur í draumi sem listamannsnafn þegar hún bjó í Japan um það leyti sem hún stofnaði og leiddi tónlistarhreyfinguna TIlraunaeldhúsið (Kitchen Motors) ásamt Jóhanni Jóhannssyni og Hilmari Jenssyni. Hreyfingin var leikvöllur fyrir samruna listmiðla, útgáfa og hugmyndasmiðja sem framleiddi fjölbreytt verkefni og sýningar sem þau túruðu með út um allar jarðir. www.kirakira.is

Þórir Hermann Óskarsson

Þórir Hermann lærði á píanó frá unga aldri ásamt klarinett og gítar, á Englandi þar sem hann ólst upp. Eftir að hann flutti til Íslands 16 ára gekk hann í FÍH og Tónlistarskólann í Reykjavík, þar sem hann útskrifaðist með Burtfararpróf í klassískum píanóleik og tónsmíðum. Þórir Hermann er að mestum hluta klassískt menntaður en þó sækir hann innblástur úr mörgum áttum, þar á meðal Jazz, Prógressívt Rock, Pop, Elektróník og Þjóðlagatónlist. Um þessar mundir stundar Þórir Hermann tónsmíðanám við Listaháskóla Íslands. Á tónleikunum í Alþýðuhúsinu mun Þórir flytja eigin verk á píanó í bland við verk Daníels Sigurðssonar sem leikur á trompet og í samstarfi við Snorra Skúlason sem leikur á kontrabassa.

Framfari

Framfari er sjálfmenntaður tónlistamaður sem hefur verið í hljómsveitabrölti frá unglingsárum, og tekið þátt í ýmsum tónlistaverkefnum, samspili og listviðburðum. Á undanförnum árum hefur hann einnig snúð sér að tónsmíðum og tileinkað sér píanóleik til að koma þeim á framfæri. Framfari samdi tónlistina fyrir heimildarmyndina Af jörðu ertu komin sem frumsýnd var á síðasta ári og hefur haldið fjölda tónleika undanfarið í samstarfi við tónlistarmanninn Rafnar.

Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir 

Arnbjörg er Kundalini jógakennari, jógískur ráðgjafi, heilari, Bowentæknir og nemi í jógísku heilunarleiðinni Sat Nam Rasayan. Hún hefur einnig lært og starfar við grafíska hönnun og myndlist og gaf Salka út hennar fyrstu hugleiðslubók sem nefnist Hin Sanna Náttúra. Gongið og gítarinn eru iðulega hluti af jógakennslunni enda rík hljóðheilunar- og möntrutónlistarhefð í Kundalini jóga eftir forskrift Yogi Bhajan. Hún hefur starfað við náttúrulegar meðferðir til bættrar heilsu um árabil, kennt börnum í grunnskóla, fjölskyldujóga og hefðbundið Kundalini jóga í jógasal Ljósheima. Hún þróaði og hefur kennt jóga í vatni í nokkur ár ásamt því að kenna meðgöngujóga í vatni hjá Græna Lótusnum.

Sigurbjörg Þrastardóttir                                                                                                                                            

Sigurbjörg er fædd 27. ágúst 1973 á Akranesi. Hún lauk B.A.-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 1997 og prófi í hagnýtri fjölmiðlun frá sama skóla 1998.

Fyrsta ljóðabók Sigurbjargar, Blálogaland, kom út árið 1999. Ári síðar kom út ljóðabókin Hnattflug sem hlaut góðan meðbyr og var til að mynda valin besta ljóðabók vertíðarinnar af starfsfólki bókaverslana. Í bókinni er ferðast um borgir, götur, fjöll, höf og aðra raunverulega staði í myndrænum ljóðum. Ljóð úr þriðju bókinni, Túlípanafallhlífum, hafa verið þýdd á ýmis tungumál og birt í safnbókum, tímaritum og á bókmenntavefjum. Sigurbjörg hefur komið fram á ljóðahátíðum í Evrópu og fjallað hefur verið um ljóðagerð hennar í króatísku, hollensku og frönsku bókmenntapressunni svo nokkuð sé nefnt. Í Svíþjóð var gefið út ljóðaúrvalið Fallskärmsresor.

Af leikverkum má nefna Þrjár Maríur (2004 á Litla sviði Borgarleikhússins), uppistandið Maður og kona: Egglos (Leikfélag Akureyrar, 2003) og leikgerð Gunnlaðar sögu eftir Svövu Jakobsdóttur (í Hafnarfjarðarleikhúsinu 2005).

Skáldsagan Sólar saga kom út haustið 2002 og fjallar um unga stúlku sem gengur í gegnum erfiða lífsreynslu á Ítalíu en finnur öryggið aftur á sérstæðan hátt. Fyrir handrit bókarinnar hlaut Sigurbjörg Bókmenntaverðlaun Reykjavíkurborgar sem kennd eru við Tómas Guðmundsson árið 2002.