Menningin verður svo sannarlega allsráðandi næstu daga og komandi helgi í Fjallabyggð. Hér ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.
30. júní – 5. júlí kl. 13:00-17:00 Pálshús Ólafsfirði - Listasýning Árni Rúnar Sverrisson
Laugardaginn 30. maí sl. opnaði í Pálshúsi Ólafsfirði sýning Árna Rúnars Sverrissonar “Ferðasaga”. Sýningin verður opin á opnunartíma Pálshúss til 26. júlí.
Árni Rúnar byrjaði að sýna málverk sín fyrir meira en þremur áratugum. Hann fór snemma sínar eigin leiðir og þróaði upp sérstakt myndmál þar sem óheft litaflæði réð ríkjum. Stundum var eins og myndirnar væru að springa af lit þegar pensilstrokunar hlykkjuðust hver um aðra þar til flöturinn virtist iða og tifa af krafti. Þótt ekki væri um landslag að ræða var náttúran einhvern veginn nærri í þessum verkum – kannski fyrst og fremst í þessari orku. Átök málarans við litina og pensilinn voru slík að helst var eins og náttúruöflin sjálf töluðu í gegnum hann. Stundum var þessi orka beisluð í fastri myndbyggingu en oftar en ekki flæddi hún út um allan myndflötinn og var þá jafnvel eins og dygði ekki til og að striginn væri aðeins eins og brot úr annarri og miklu stærri mynd.
30. júní kl. 16:00-16:40 Ljóðasetur Íslands - Davíð Stefánsson og Svartar fjaðrir
Ljóðasetur Íslands, býður gestum og gangandi að koma og hlýða á frásögn úr fyrstu ljóðabók Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Lesin verða og sungin ljóð upp úr bókinni. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
1. júlí kl. 13:00-16:00 Síldarminjasafnið - Heimboð í færeyska kútterinn Westward Ho
Áhugasömum gestum er boðið að heimsækja færeyska kútterinn Westward Ho sem liggur við bryggju framan við Síldarminjasafnið.
Um er að ræða sögulegt skip sem byggt var í Grimsby árið 1884 og er því nærri 140 ára gamalt. Skipið var keypt til Færeyja 1895 og gert út til bæði þorskveiða og síldveiða fram til 1964.
Westward Ho er einn þriggja kúttera sem Færeyingar varðveita með glæsibrag. Stórir hópar sjálfboðaliða manna áhafnir skipanna og stunda enn millilandasiglingar og heiðra þannig sögu þeirra og tryggja að verkkunnátta við siglingar og viðhald tréskipa glatist ekki.
Í gömlum tollabókum sem varðveittar eru á Síldarminjasafninu var skipið skráð við síldveiðar á Siglufirði árið 1948 – og er því ekki um fyrstu heimsókn þess til Siglufjarðar að ræða. Áhöfn skipsins hefur skipulagt fjögurra daga heimsókn í samvinnu við Síldarminjasafnið og verður almenningi boðið að heimsækja áhöfnina og hljóta leiðsögn um skipið.
1. júlí kl. 16:00 – 16:40 Ljóðasetur Íslands - Gunnar Randversson
Ljóðskáldið og tónlistarmaðurinn Gunnar Randversson mun flytja eigin ljóð og lög og eru allir velkomnir og aðgangur ókeypis.
3. júlí – 5. júlí kl. 13:00-16:00 Saga Fotografica á Siglufirði - Ljósmyndasýning Vigfús Sigurgeirsson
Sýning á ljósmyndum Vigfúsar Sigurgeirssonar sem teknar voru á Siglufirði á árunum 1929-1952. Vigfús Sigurgeirsson var einn afkastamesti ljósmyndari landsins á þessum árum. Ljósmyndabók hans, Ísland í myndum, var fyrsta ljósmyndabók eftir Íslending og hann varð einnig fyrstur Íslendinga til að gefa út bók með ljósmyndum í lit.
3. júlí kl. 20:00-22:30 Frjó - Menningarhelgi í Alþýðuhúsinu á Siglufirði - Tónleikar
Tónleikar þar sem fram koma listamennirnir, Plasmabel; rafnar; Kraftgalli og Framfari
Plasmabell (Bára Kristín) spilar frumsamda abstrakt raftónlist. Hún sækir innblástur í tilraunakennda 90´s tónlist eins og trip hop, Techno, down tempo og grunge. Bára Kristín býr og starfar á Siglufirði.
rafnar tónskáld sem gaf út sín fyrstu verk í fyrra og hefur verið að tengja saman fjölbreytta heima ólíkra listforma eins og myndlist og videoverk í samhljómi við eigin tónsmíðar. rafnar er með litríkan hljóðheim sem inniheldur allt frá stóru bandi með stúlknakór og óperusöngkonu til einleiks á gítar eða pianó. rafnar mun bæði frumflytja ný verk í Alþýðuhúsinu sem og lög af fyrstu plötunni hans VODA sem kemur út 8. Október 2020.
Kraftgalli spilar raftónlist með púlsandi takti og þrykkþéttum bassa, þar sem ýmis furðuhljóð fá að njóta sín og skammlaust gælt við giltí plessjörs! Kraftgalli hefur undanfarin misseri gefið út eitt og annað smælki, en vinnur nú hörðum höndum að koma sinni fyrstu breiðskífu í útgáfu og situr við skriftir söngspilsins eða tónlistarævintýrisins Trítladansinn sem er væntanlegt á næsta ári. Hjá Kraftgalla leynast áhrif frá rokki og róli, hnausþykku fönki, köflum kryddað austurlenskum blæbrigðum og hrynjanda, en hver veit nema orkneyskir trítlar komi við sögu með danskennslu. Aldrei er þó of langt í diskóið! Kraftgalli hefur gefið út hjá hfn music og SMIT records og hefur komið fram í Belgíu, Þýskalandi og Sierra Leone. Hann hlaut tilnefningu fyrir lag sitt Rússíbana í flokknum raftónlistarlag ársins á Íslensku Tónlistarverðlaununum 2020.
Framfari er sjálfmenntaður tónlistarmaður sem hefur tekið þátt í ýmsum tónlistaverkefnum, samspili og listviðburðum. Á undanförnum árum hefur hann einnig í auknum mæli snúið sér að tónsmíðum og tileinkað sér píanóleik. Framfari samdi tónlistina fyrir heimildarmyndina Af jörðu ertu komin sem frumsýnd var á síðasta ári og hefur haldið fjölda tónleika undanfarið í samstarfi við tónlistarmanninn rafnar. Framfari ætlar að spila frumsamda tónlist á Frjó, enn á huldu hverjir munu koma fram ásamt honum.
4. júlí kl. 14:00-17:00 Frjó - Menningarhelgi í Alþýðuhúsinu á Siglufirði - Sýningaropnun í Kompunni
Tumi Magnússon; Almenningsssamgöngur
Leikur með tíma og rými er notaður til að búa til umhverfi sem líkist þeim farartækjum sem notuð eru við fólksflutninga í sveit og bæ. Áhorfandinn tekur sér far og lendir á stað sem er samsettur úr mörgum stöðum og þar sem tíminn er í mörgum lögum sem breytast í sífellu. Hann fær tækifæri til að verða ruglaður í rýminu og ríminu og að draga bæði skynsamlegar og óskynsamlegar ályktanir af öllu saman.
Byggingaraðferðin er videó og hljóð í fjórum sneiðum.
4. júlí kl. 14:00-17:00 Frjó - Menningarhelgi í Alþýðuhúsinu á Siglufirði - Línus Orri
Linus Orri Gunnarsson mun umvefja gesti Alþýðuhússins um menningarhelgina Frjó með flæðandi tónlist innan og utandyra. Línus Orri er sjálfmenntaður tónlistarmaður sem spilar á gítar, mandólín og írska þverflautu. Hefðbundið tónlistarnám hentaði honum ekki en foreldrar hans eru báðir tónlistarkennarar þannig að hann er alinn upp við tónlist. Línus Orri hefur verið mjög virkur í þjóðlagatónlist á höfuðborgarsvæðinu og á Siglufirði og elskar þegar tónlistin sprettur fram eins og lífrænt flæði í daglegu lífi. Línus Orri gaf út plötu 2014 sem heitir Songs From Your Collarbone með hljómsveitinni Myndra.
4. júlí kl. 15:00-15:30 Síldarsöltun á planinu við Róaldsbrakka
Komdu og njóttu þess að upplifa síldarsöltun og heimsækja Síldarminjasafnið í kjölfarið!
Síldarstúlkur staðarins salta í tunnur, sýna gömul vinnubrögð og vekja upp gamla andann af síldarplönunum, meðal annars með söng, dansi og bryggjuballi við harmonikuspil. Sýningarnar hafa notið mikilla vinsælda meðal safngesta og ferðamanna og gefa gestum sérstaka innsýn í sögu síldarinnar er þeir fylgjast með síldarstúlkunum hausskera og slógdraga síldina – og leggja svo niður í tunnur.
4. júlí kl. 17:00-18:00 Sumartónleikar Þjóðlagaseturs í Siglufjarðarkirkju - Rauð varð sólin sæla
Tvíeykið Funi, söng- og kvæðakonan Bára Grímsdóttir og Chris Foster söngvaskáld koma fram á fyrstu sumartónleikum Þjóðlagaseturs sr. Bjarna Þorsteinssonar í Siglufjarðarkirkju. Þau ætla að flytja íslensk og ensk þjóðlög í eigin útsetningum, sungin og leikin á langspil, gítar, kantele og íslenska fiðlu. Bára Grímsdóttir ólst upp við söng og kveðskap, heyrði og lærði allt frá barnæsku kveðskap foreldra sinna, afa og ömmu á bænum Grímstungu í Vatnsdal. Bára er af mörgum talin vera einn allra besti túlkandi þjóðlegrar tónlistar hér á landi, en hún hefur sérstakan áhuga á rímnastemmum og kvæðalögum. Hún hefur fengist við flutning á margs konar þjóðlagatónlist bæði hér heima og erlendis. Sem tónskáld og útsetjari, hefur Bára nýtt sér uppsprettulindir íslenskra þjóðlaga til skapandi starfs en hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar sem tónskáld.
Chris Foster kynntist þjóðlögum í uppvexti sínum í Somerset í Suðvestur-Englandi. Flutningur hans einkennist af mikilli og persónulegri innlifun í tónlistina, sem oft leiðir til þess að áheyrendur verða beinir þátttakendur í því sem fram fer og flutt er. Chris hefur sett þjóðlagahefðina í nútímalegan búning með sérstæðum, frumlegum gítarundirleik og sannfærandi söngtúlkun. Hann er talinn einn besti listamaður síðari tíma á sínu sviði og í fremstu röð merkra brautryðjenda í endurvakningu á breskri þjóðlagatónlist.
4. júlí kl. 20:00-21:30 Frjó - Menningarhelgi í Alþýðuhúsinu á Siglufirði - Tónleikar
Tónleikar þar sem fram koma listamennirnir. Þórir Hermann Óskarsson og Söngelsku leðurblökurnar frá Reykjavík
Þórir Hermann Óskarsson mun flytja vel valda þjóðlega dansa frá Búlgaríu og Rúmeníu eftir Ungverska þjóðlagameistarann Béla Bartók. Þórir hefur sérstaklega gaman af tónlist þessara tíma og stefnu, þar sem fjörugur barbarismi innan klassíska formsins ríkir með frjálslegri atónalitet.
Þórir hefur leikið á píanó frá 5 ára aldri og eftir það bættist við klarínetta, gítar og söngur. Ekki leið langur tími fyrr en hann fór að beina athyglinni að eigin tónsmíðum. Rík og fjölbreytt flóra hefur alltaf verið stór partur af tónlistarlífi Þóris, og sækir hann innblástur frá poppi og elektró jafnt sem djazz, klassík, þjóðlagatónlist og allt þar á milli.
Söngelsku leðurblökurnar frá Reykjavík munu blaka Alþýðuhúsinu og blakta um allt síldarmetrópólísið. Draumkenndin verður ríkjandi án þess þó að mara í tröðinni.
5. júlí kl. 14:30-15:30 Frjó - Menningarhelgi í Alþýðuhúsinu á Siglufirði - Sunnudagskaffi með skapandi fólki
Unnur María Máney Bergsveinsdóttir, einnig þekkt sem Húlladúllan og Ungfrú Hringaná, segir gestum frá sirkuslistum og lífi.
Unnur Máney er sjálfstætt starfandi sirkuslistakona, búsett á Ólafsfirði. Hún hefur starfað með Sirkus Íslands, breska sirkusnum Let’s Circus og hefur komið fram á ýmsum viðburðum í Frakklandi, Bretlandi og í Mexíkó. Auk þess að leika listir sínar kennir hún bæði börnum og fullorðnum hinar ýmsu sirkuslistir, með sérstakri áherslu á húlla, akró, loftfimleika og jafnvægiskúnstir. Hún lauk húllakennaranámi frá Live Love Hoop í Bristol árið 2016 og alþjóðlegu Social Circus kennaranámi á vegum Caravan sirkussamtakanna og Evrópusambandsins árið 2019. Unnur Máney starfar með kabarettinum Drag-Súgi og með Reykjavík Kabarett og er stofnandi Akró Ísland hópsins
Allar nánari upplýsingar um viðburði er meðal annars að finna í viðburðadagatali á heimasíðu Fjallabyggðar.
Athugið að listinn er ekki tæmandi.