Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar heimsækir listamenn og söfn

Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar ásamt starfsmönnum Síldarminjasafns Íslands
Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar ásamt starfsmönnum Síldarminjasafns Íslands

Forsvarsmenn Síldarminjasafnsins þau Aníta Elefsen, safnstjóri,  Edda Björk Jónsdóttir og Daníel Pétur Daníelsson, buðu markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar í heimsókn  í Síldarminjasafnið í gær mánudaginn 5. desember.

Í kjölfar kosninga og skipan nýrrar markaðs- og menningarnefndar vildu forsvarsmenn safnsins bjóða kjörnum fulltrúum sem eiga sæti í nefndinni til heimsóknar á Síldarminjasafnið.

Í heimsókninni var starfsemin kynnt og farið yfir helstu skyldur safnsins og verkefni þess sem hvoru tveggja snúa að móttöku ferðamanna sem og daglegum störfum í þágu minjavörslu í landinu.  Nefndin skoðaði einnig Salthús Síldarminjasafnsins. Húsið sem er friðað frá 1893 var fyrst byggt á Suðureyri í lok 19. aldar og síðar endurbyggt á Tálknafirði. Húsið var svo byggt upp í þriðja sinn í kringum 1946 og þá á Akureyri. Húsið hefur nú risið á ný á Siglufirði og er samvinnuverkefni Síldarminjasafnsins og Þjóðminjasafns Íslands. Endurbygging hefur gengið vel og er húsið stórglæsilegt í alla staði. Salthúsið verður svo sannarlega góð viðbót við safnahúsin.

Í Salthúsinu verður m.a. aðal munageymsla safnsins, rými fyrir forvörslu minja, skrifstofurými og fleira. Einnig verður sett upp sýning á Salthúsloftinu um veturinn í síldarbænum, þar sem skólastarfi, togaraútgerð, verkalýðshreyfingunni og skíðaiðkun verða meðal annars gerð skil.   Í húsinu verður einnig kaffihús, gestamóttaka og minjaverslun.

Markaðs- og menningarnefnd þakkar forsvarsmönnum kærlega fyrir mjög svo fróðlegt og skemmtilegt heimboð.