Líkamsræktin í Ólafsfirði
Mynd: Fjallabyggð
Heilbrigðisráðuneytið, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið, gaf í gær út leiðbeinandi viðmið um hvernig beri að túlka takmörkun á samkomum og skólastarfi í tengslum við íþrótta- og æskulýðsstarf. Mælst er til þess að hlé verði gert á öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu þar til takmörkun skólastarfs lýkur.
Sóttvarnalæknir sendi í kjölfarið frá sér áréttingu þar sem kemur fram að sameiginleg notkun á hvers konar búnaði til íþróttaiðkunar, boltum, dýnum, rimlum, handlóðum, skíðalyftum og margs fleiru án góðrar sótthreinsunar á milli notkunar einstaklinga sé mjög varasöm og ekki í anda fyrirmæla um sóttvarnir. Því er augljóst, að mati sóttvarnalæknis, að í flestum íþróttum er nánast ómögulegt að æfa eða keppa. Íþrótta- og Ólympíusamband Ísland og Ungmennafélag Íslands sendu í kjölfarið frá sér fréttatilkynningu um að allt íþróttastarf falli tímabundið niður.
Í ljósi þessa hefur verið tekið sú ákvörðun að loka líkamsræktum og íþróttasölum Íþróttamiðstöðvar Fjallabyggðar á meðan á samkomubanni stendur. Lokunin tekur gildi frá og með sunnudeginum 22. mars 2020. Sundlaugar verða áfram opnar með áður auglýstum skilyrðum.