Ljósin tendruð á jólatrjánum í Fjallabyggð

Jólatréð í Ólafsfirði
Jólatréð í Ólafsfirði

Frábærar fjölmennar jólastundir voru á Siglufirði og  Ólafsfirði um nýliðna helgi þegar ljósin voru tendruð á jólatrénu á Ráðhústorginu og við Tjarnarborg.

Hátíðin fór fram á Siglufirði föstudaginn 1. desember. Þar flutti Karen Sif Róbertsdóttir jólaávarp og börnin af Leikskálum sungu af mikilli gleði og innlifun nokkur jólalög undir leiðsögn Hauks Orra sem spilaði undir á harmonikku. Tryggvi og Guðmann fluttu svo nokkra hressandi jóla slagara áður en Matthías Skúli 5 ára nemandi leikskólans kveikti ljósin á trénu.

Á Ólafsfirði voru ljósin tendruð laugardaginn 2. desember.  Áslaug Inga Barðadóttir flutti okkur jólaávarpið og börnin úr Leikhólum sungu fjölmörg jólalög við mikla gleði og hrifningu.  Það var hún Ave Sillaots sem lék undir á harmonikku. Þá kveikti hann Axel Rafn 5 ára nemandi úr Leikhólum marglit ljósin á hinu mjög svo tignarlega jólatré sem áður stóð við Hjúkrunarheimilið Hornbrekku. Skíðafélag Ólafsfjarðar bauð gestum upp á heitt súkkulaði með rjóma sem yljaði svo sannarlega í snjónum.

Jólasveinarnir birtust svo óvænt við mikinn fögnuð með gott í poka og ærslagang.

Við sendum okkar bestu jólakveðjur til þeirra bæjarbúa sem ekki áttu kost á því að vera með okkur og Fjallabyggð þakkar þeim fjölmörgu, bæði stórum og smáum sem komu að undirbúningi og framkvæmd þessara gleðilegu jólastunda.