Ljóðahátíðin Glóð var haldin á Siglufirði dagana 18.-20. október sl. og fyrir henni stóðu Ungmennafélagið Glói og Herhúsfélagið í samstarfi við Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar. Dagskráin var í 10 liðum, heppnuðust þeir allir vel og voru þátttakendur og áheyrendur mjög ánægðir og þakklátir. Þegar allt er talið má segja að flutt hafi verið ljóð fyrir um 250 manns. Ljóðskáld heimsóttu skólann og dvalarheimili aldraðra, Skálarhlíð, og lásu úr sínum verkum og annarra. Haldin voru þrjú ljóðakvöld, þau sóttu um 60 gestir, námskeið í bragfræði og framsögn sátu um 20 manns og gestir á leiksýningunni Aumingja litla ljóðið voru um 25. Auk þess var glerlistasýning í Herhúsinu tengd hátíðinni sem um 50 gestir skoðuðu.
Það er því ljóst að vel tókst til og haldið verður áfram næstu ár með von um að hátíðin vaxi og dafni og vinni sér nafn og sess.