Dagana 18.-20. október fer fram ljóðahátíð á Siglufirði og hefur hún hlotið nafnið Glóð og er stefnt að því að gera hana að árlegum viðburði. Það eru Ungmennafélagið Glói og Herhúsfélagið á Siglufirði sem standa að hátíðinni í samvinnu við Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar. Ljóðahátíð þessi kemur í kjölfar ljóðakvölda sem Ungmennafélagið Glói hefur staðið fyrir á Siglufirði undanfarna tvo vetur. Þar hafa ljóðavinir komið saman 5-6 sinnum yfir veturinn og flutt eigin verk og annarra í tali og tónum. Hafa ljóðakvöld þessi verið mjög vel heppnuð og ágætlega sótt.
Ljóðahátíðin Glóð hefst fimmtudagskvöldið 18. október með ljóðakvöldi í Þjóðlagasetrinu þar sem valinkunnir bæjarbúar koma fram og flytja eigin ljóð og annarra. Síðan rekur hver viðburðurinn annan og hátíðinni lýkur í Herhúsinu á laugardagskvöldi með dagskrá í tali og tónum sem tileinkuð er Jónasi Hallgrímssyni. Auk ljóðakvölda og annarra upplestra verða í boði námskeið í bragfræði og framsögn, einleikurinn Aumingja litla ljóðið og glerverkasýning. Sérstakir gestir hátíðarinnar eru Sigurður Skúlason leikari, þýðandi og ljóðskáld, Þórarinn Torfason ljóðskáld, Elfar Logi Hannesson leikari og Dröfn Guðmundsdóttir myndhöggvari.