Samsýning í Listhúsi Fjallabyggðar í Ólafsfirði og Ráðhúsinu á Siglufirði, Dagana 2. - 5. maí í Ólafsfirði og 6. - 10. maí á Siglufirði
Sýnendur frá Ólafsfirði
Myndlistarkonan Garún, Guðrún Þórisdóttir, leirlistakonan Hófý, Hólmfríður Arngrímsdóttir og Kristjana Sveinsdóttir myndlistarmaður.
Sýnendur frá Siglufirði: Starfsmenn Iðju-Dagvistar, handverkskonur í Kvennasmiðjunni, félagar í Sjálfsbjörgu, handverkskonur í Galleríi Sigló, listakonan Abbý, Arnfinna Björnsdóttir
Samsýning í FjallabyggðHátíðin hefst í Ólafsfirði 2. maí í Listhúsi Fjallabyggðar með samsýningu sem verður opin til 5. maí. Sama sýning verður á Siglufirði dagana 6. - 10. maí í Ráðhúsinu. Sýningarnar verða opnar á báðum stöðum laugardaga og sunnudaga frá kl. 13-17 og virka daga frá kl. 14 -18. Listahátíðin List án landamæra verður haldin í sjötta sinn árið 2009 og verður nú haldin í fyrsta sinn í Fjallabyggð. Á hátíðinni hafa fatlaðir og ófatlaðir unnið saman að ýmsum listtengdum verkefnum með frábærri útkomu sem hefur leitt til aukins skilnings manna á milli með ávinningi fyrir samfélagið allt. Ákveðið var að gera þetta að árlegum viðburði en sífellt fleiri þátttakendur og áhorfendur bætast við á hverju ári. Sýnileiki einstaklinga með fötlun er mikilvægur í samfélaginu og eykst með þátttöku þeirra í almennu menningarlífi. Þátttakendur í hátíðinni gefa góða mynd af því fjölbreytta og kröftuga listalífi sem hér þrífst. Hæfileikafólk er á hverju strái en stundum skortir tækifæri fyrir það til að koma sér á framfæri. List fatlaðs fólks er því miður ekki nógu áberandi í almennu menningarumhverfi. List án landamæra stuðlar að því að breyta því og samstarf og opnun á milli hópa og ólíkra einstaklinga leikur þar stórt hlutverk. List án landamæra leggur áherslu á að fatlaðir taki þátt í listviðburðum sem sýnendur en einnig að hvetja til þess að þeir njóti sem áhorfendur. Áhersla er jafnframt á að atburðir séu af ýmsum stærðargráðum. Það þýðir að reynt er að auka þátttöku fatlaðra listamanna á viðurkenndum sýningarstöðum jafnframt sem og að hvetja fólk til þess að standa fyrir litlum atburðum, þannig að fleiri hafi færi á þátttöku.
Karítas Skarphéðinsdóttir Neff - fræðslu- og menningarfulltrúi