Merki Lífshlaupsins
Lífshlaupið verður nú ræst í áttunda sinn, í dag, miðvikudaginn 4. febrúar. Markmið Lífshlaupsins er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig og huga að sinni hreyfingu í frítíma, heimilisstörfum, vinnu, skóla og við val á ferðamáta.
Skrá má alla hreyfingu inn á vefinn www.lifshlaupid.is svo framarlega sem hún nær ráðleggingum Embætti landlæknis um hreyfingu en þar er börnum og unglingum er ráðlagt að hreyfa sig í að minnsta kosti 60 mínútur á dag og fullorðnum í að minnsta kosti 30 mínútur á dag.
Vinnustaðir, skólar og einstaklingar eru hvattir til að taka þátt og nota þannig tækifærið til að efla líkama og sál með því að hreyfa sig daglega.
Starfsfólk bæjarskrifstofu, bókasafns og héraðsskjalasafns Fjallabyggðar hefur nú þegar skráð sig til leiks og skorar á starfsmenn annarra stofnanna Fjallabyggðar sem og annarra fyrirtækja í Fjallabyggð að gera slíkt hið sama.
Vinnustaðakeppni Lífshlaupsins stendur frá 4. - 24. febrúar 2014 að báðum dögum meðtöldum.
Hægt er að skrá vinnustaði og lið inn allt til síðasta dags eða til 24. febrúar 2015.
Keppt er í 7 flokkum eftir fjölda starfsmanna á vinnustaðnum um annars vegar hlutfall daga og hins vegar hlutfall mínútna:
3-9 starfsmenn
10-29 starfsmenn
30-69 starfsmenn
70-149 starfsmenn
150-399 starfsmenn
400-799 starfsmenn
800 o.fl. starfsmenn
Eftirfarandi reglur gilda í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins:
Hverjir eru gjaldgengir þátttakendur?
Allir geta tekið þátt í Lífshlaupinu.
Hvað má skrá?
Alla miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu sem stunduð er utan vinnutíma. Til þess að fá einn dag skráðan þarf að hreyfa sig að lágmarki í 30 mínútur sem skipta má upp í nokkur skipti yfir daginn, t.d. 10 - 15 minútur í senn. Ath. einungis er leyfilegt að skrá vikuleg heimilisþrif sem svo sannarlega fela í sér miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu.
Skráning
Einungis er hægt að skrá hreyfingu í keppnina 10 daga aftur í tímann og því mikilvægt að skrá hreyfinguna jafnt og þétt á meðan á keppni stendur.
Hvað má ekki skrá?
Ekki er heimilt að skrá þá hreyfingu sem fellst í starfi einstaklinga. Til dæmis ef einstaklingur vinnur við það að bera út póst 8 klukkustundir á dag er honum ekki heimilt að skrá 8 klukkustundur í göngu fyrir þann dag.
Hvaða starfsmannafjölda á að gefa upp?
Skrá á þann starfsmannafjölda sem launadeild viðkomandi vinnustaðar hefur á launaskrá þegar keppni hefst, óháð starfshlutfalli. Ef einhverjir starfsmenn eru í orlofi eða námsleyfi á þeim tíma sem Lífshlaupið fer fram má draga þann fjölda frá. Ath. ekki er hægt að gera breytingar á starfsmannafjölda eftir 13. febrúar nema að starfsmenn verkefnisins óski þess.
Framlag hvers og eins telur.
Í anda almenningsíþrótta er leikurinn byggður upp með það að markmiði að framlag hvers og eins telur, ef starfsmaður skráir einn dag þá telur það - Allt er betra en ekkert.
Allar nánari upplýsingar á heimasíðu Lífshlaupsins.