10.12.2002
Um klukkan 12:30 í dag barst björgunarsveitinni á Siglufirði beiðni um aðstoð frá 11 tonna trébáti, Hafborgu, en leki var kominn að bátnum. Sigurvin, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, hélt þegar til móts við Hafborgu og fylgdi bátnum inn til Siglufjarðar. Einn maður var um borð í Hafborgu.Í samtali við local.is sagði Sveinn Björnsson, formaður björgunarsveitarinnar á Siglufirði, að Hafborg hafi verið stödd um 3 sjómílur norður af Siglufirði og því var siglingin fyrir Sigurvin, frá bryggju á Siglufirði, um sjö sjómílur. Þegar Sigurvin kom að Hafborgu var vél bátsins enn í gangi, þó hún væri hálf í sjó, en dæla um borð hafði ekki undan. Sigurvin, sem er með öfluga dælu, náði að dæla sjónum úr Hafborgu og fylgdi svo bátnum inn til Siglufjarðar en á leiðinni til hafnar þurfti að dæla aftur úr bátnum. Að sögn Sveins var það laskaður loki í inntaksröri að vél sem olli lekanum en þar sem sjómaðurinn um borð í Hafborgu brást rétt við skapaðist ekki veruleg hætta. Mjög gott var í sjóinn; logn og spegilsléttur sjór.Frétt á local.is