Lausir hundar

Þó nokkuð er um að hundar gangi lausir í þéttbýli í Fjallabyggð þrátt fyrir að það sé bannað samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins um hundahald. Leyfilegt er að sleppa hundum lausum utan þéttbýlis í sveitarfélaginu, en þeir þurfa ávallt að vera í fylgd eiganda eða annarra sem hafa fulla stjórn á þeim. Innan þéttbýlisins eiga hundar alltaf að vera í taumi, hvort sem er á göngu eða í görðum eigenda.

Í mörgum sveitarfélögum er tekið hart á slíkum brotum og bæjarstarfsmenn og lögregla fjarlæga slíka hunda. Hingað til hefur ekki verið gengið svo langt í Fjallabyggð. Hins vegar er vert að minna hundaeigendur á að fjölmargir, bæði fullorðnir og börn, eru mjög hræddir við hunda. Einnig eru sumir með ofnæmi fyrir hundum og jafnvel með bráðaofnæmi. Því getur laus hundur verið erfið reynsla fyrir suma, jafnvel lífshættuleg. 

Við viljum biðja hundaeigendur að taka tillit til annarra og fara eftir reglum, því það eiga að vera sjálfsögð réttindi hvers og eins að geta gengið óttalaus um bæina okkar, hvort sem það eru gestir eða íbúar í Fjallabyggð. Við minnum einnig á að hundaeigendur eiga að þrífa upp eftir hunda sína. Settar hafa verið upp sérstakar söfnunartunnur í sveitarfélaginu sem ætlaðar eru fyrir hundaskít.