Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar útnefndi Aðalheiði S. Eysteinsdóttur Bæjarlistamann Fjallabyggðar árið 2022.
Af því tilefni opnar hún sýningu í Ráðhússal Fjallabyggðar á Siglufirði á verkum sem hún hefur unnið á undanförnum níu mánuðum. Með sýningunni vill hún þakka þann heiður sem henni er sýndur með útnefningunni.
Sýningin opnar föstudaginn 1. júlí kl. 16.00 - 18.00 en verður opin daglega frá kl. 13.00 - 16.00 til og með 20. júlí.
Í tilefni af 10 ára menningarstarfi í Alþýðuhúsinu á Siglufirði 2012 - 2022 kemur út vegleg bók um starfið nú í byrjun júlí og efnt verður til 6 daga afmælishátíðar sem ber yfirskriftina Frjó dagana 15. - 20. júlí. Sýningin í Ráðhússalnum er hluti af þeirri dagskrá.
Tilkynning frá Aðalheiði S. Eysteinsdóttur um sýninguna.
Lágmyndir og leikur
Lágmyndir hafa verið hluti af myndheimi mínum síðastliðin 17 ár.
Formið gefur mér ákveðið frelsi og nýt ég þess að finna hluti sem hafa verið lagðir til hliðar og staðsetja þá í sköpunarferlinu. Leikur að litum og munstrum sem oft á tíðum bera fjölþjóðlegt yfirbragð, framkallast í samhengi við hyrnulaga mannsmyndir. Hyrnan er okkur Siglfirðingum hugleikin þar sem fjallið okkar Hólshyrnan situr í miðjum fjallahringnum og varpa geislar hádegissólarinnar gullnum blæ niður Hólsdalinn og áfram yfir bæinn okkar.
Leikur að 100 sentimetrum
Fundnir hlutir, fjársjóðsleit, hugmyndaflæði, hugleiðsla og markmið.
Menning er að gera hlutina vel, sagði og skrifaði Þorsteinn Gylfason heimspekingur. Að mörgu leiti er ég sammála þessu og hef haft sem einkunarorð í mínu daglega lífi. Þegar ég rekst á hluti sem hugmyndaríkir aðilar hafa framkvæmt hvort sem er handverk eða verksmiðjuframleitt, dáist ég að sköpunarverkinu. Oft verða slíkir hlutir á vegi mínum á flóamörkuðum eða á gámasvæðum þar sem búið er að setja til förgunar. Ég finn mig knúna til að gefa hlutunum annað líf, framhaldslíf sem hluti af listsköpun og oft kveikjan að skapandi ferli. Á 29 ára ferli sem listamaður hefur safnast að mér ýmist dót og gersemar sem ávallt bíða síns tíma að komast að í sköpunarferlinu. Hlutirnir ásamt ýmsum timburafgöngum og öðru tilfallandi efni hafa verið uppistaða í listsköpun minni alla tíð og segja má að ég hafi verið ötul í endurvinnslunni öll þessi ár. Þannig hef ég í gegnum tíðina gert minni og stærri verk með fundnum hlutum og má þar nefna sýninguna Heimar sem sett var upp á Listasafninu á Akureyri 1999 og Flæðilínu sem sett var upp í Safnasafninu á Svalfbarðsströnd árið 2017. Smærri verk hafa litið dagsins ljós meðfram vinnu við þrívíða skúlptúra og hef ég haft yndi af að raða og púsla ólíku efni þannig að úr verði ein heild og allt passi saman tilviljanakennt inn í ákveðin mál.
Leikur að 100 sentimetrum eru frístandandi abstrakt skúlptúrar sem allir eru nákvæmlega 100 sm. á hæð hlaðið upp með tilfallandi og fundnu efni í bland við málverk og smærri skúlptúra. Verkin eiga sér langan aðdraganda, allt frá því ég var upptekin af öðrum menningarheimum þar sem fólk hleður varningi á höfuð sér og þær hugmyndir rötuðu á málverk á glugga. Eða til 10 ára gamals verks sem gekk út á að raða saman hlutum sem allir voru 11 sm á hæð. Nú sameinast margar fyrri hugmyndir í þessum skúlptúrum sem einnig eru eins og hluti af lágmyndunum hafi stokkið útá gólf.
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir fæddist á Siglufirði 23. júní 1963 og bjó þar til 1986, þegar hún fluttist til Akureyrar. Hún stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri 1989 - 93 og hefur síðan unnið ýmis störf á sviði myndlistar ásamt því að setja upp ríflega 200 einkasýningar í 14 löndum á 29 ára ferli. Verk hennar má finna á opinberum stöðum víða um land, á Listasafninu á Akureyri, Listasafni Reykjanesbæjar og í einkasöfnum bæði á Íslandi og erlendis. Aðalheiður starfrækti Kompuna, gallerí á Akureyri í 8 ár, tók virkan þátt í uppbyggingu Listagilsins á Akureyri og er einn af stofnendum Verksmiðjunar á Hjalteyri. Hún hefur verið gjaldkeri Gilfélagsins á Akureyri, varaformaður Myndlistafélagsins á Akureyri og er félagi í SÍM og Myndhöggvarafélaginu. Árið 2000 var hún útnefnd Bæjarlistamaður Akureyrar og sama ár hóf hún þátttöku í Dieter Roth akademíunni. Aðalheiður hefur nokkrum sinnum hlotið starfslaun ríkisins og var á dögunum útnefnd Bæjarlistamaður Fjallabyggðar fyrir árið 2022. Í desember 2011 keypti Aðalheiður Alþýðuhúsið á Siglufirði og hefur komið upp vinnustofu þar. Einnig stendur hún fyrir mánaðarlegum menningarviðburðum og hefur endurvakið Kompuna í litlu rými þar. Aðalheiður hlaut menningarverðlaun DV. árið 2015 og var tilnefnd til Eyrarrósarinnar 2017 og 2020 fyrir starfið í Alþýðuhúsinu.
Vinnustofa og heimili Aðalheiðar er í Alþýðuhúsinu á Siglufirði og í Freyjulundi 604 Akureyri. www.althyduhusid.com / www.freyjulundur.is. sími. 865-5091