Í Fjallabyggð er staddur 7 manna hópur frá Finnlandi, við tökur á kvikmynd og myndum fyrir netsíðuna http://scrapbook.fi/ . Netsíða þessi er tileinkuð snjóbrettaáhugafólki og þar er m.a. hægt að finna kvikmyndir um snjóbrettaferðir þeirra til Noregs, Austurríkis og Himalayafjalla.
Hópurinn saman stendur af tveimur kvikmyndatökumönnum, Temmu og Juso, ljósmyndaranum Peter og snjóbrettasnillingunum Markku, Tomi, Tero og Teo. Teo er þó fjarri góðu gamni því hann er meiddur og neyðist því til að liggja heima og reyna að horfa á íslenska sjónvarpið. Þeim til aðstoðar eru svo þeir Siggi og Jói frá Dalvík.
Um síðust helgi mokuðu þeir snjó á skíðastökkpallinn í Ólafsfirði og renndu sér niður hann með miklum tilþrifum. Í dag mátti sjá þá á skólalóð Grunnskóla Ólafsfjarðar, reyna að stökkva yfir leikkastalann. Ætlunin er að taka enn glæfralegri og glæsilegri myndir í fjöllunum hér í kring en vegna veðurs eða öllu heldur birtuskilyrða hefur það ekki gengið eins vel og þeir vonuðu. Hópurinn kom hingað 26. mars og ætlar ekki heim fyrr en næsta sunnudag. Við skulum því vona að það birti aðeins til fyrir þá, svo að þeir geti sýnt okkar glæsilegu fjöll í réttu ljósi.
Á netsíðunni http://www.scrapbook.fi/ er hægt að fræðast meira um alla þessa stráka og skoða þær kvikmyndir sem þeir hafa þegar framleitt. Þegar tökum og vinnu við þessa nýjustu mynd þeirra er lokið mun hún birtast þar.